Tveir starfsmenn Landspítalans eru á meðal þeirra sem lagðir hafa verið inn á sjúkrahús í þriðju bylgju faraldursins, að því er Már Kristjánsson yfirlæknir smitsjúkdómadeildar staðfestir í samtali við mbl.is.
Segir hann að innlagnirnar beri þess merki að starfsmenn spítalans séu ekki undanskildir þegar kemur að alvarlegum veikindum vegna smits en smit sem greinst hafa hjá starfsmönnum má rekja til persónulegra athafna þeirra fremur en útsetningar vegna umönnunar Covid-sjúklinga.
„Eins og ljóst er þá kom upp smit hjá okkur á deildum spítalans ekki vegna þess að fólk hafi smitast af sjúklingum heldur vegna smits í samfélaginu,“ segir Már. Því hafi til langs tíma verið grímuskylda á spítalanum en verið sé að glíma við það verkefni að sporna við virkni starfsmanna sem getur leitt af sér að smit berist inn á spítalann.
Göngudeild Covid-19 á Landspítalanum fylgist nú með alls 643 smituðum einstaklingum að sögn Más og er því talsvert álag á spítalanum. Þurft hefur að hliðra til verkefnum til þess að sporna við álagi á göngudeildinni auk þess sem nauðsynlegt er að Landspítalinn sé viðbúinn óvæntu álagi sem kann að verða á göngudeildum spítalans.
„Það er fyrst og fremst álag á göngudeildunum og síðan er mjög mikið á gjörgæsludeildunum. Það sem er öðruvísi en áður er að það eru fleiri slys og veikindi sem leggjast á gjörgæsluna fyrir utan Covid-veikindi,“ segir Már.
Þar sem gjörgæslan taki við óvæntum veikindum og slysum þurfi viðbragðið að vera til staðar þar.
„Það er meðal annars ástæðan fyrir því að við getum ekki verið með skurðstofur í gangi. Það þarf að taka starfsfólkið þaðan og flytja það á gjörgæslu til þess að auka viðbragðið þar,“ útskýrir Már í lokin.