Þrátt fyrir að 20 manna samkomutakmörkun taki gildi á miðnætti í kvöld mega 350 manns ennþá koma saman ofan í Laugardalslaug í Reykjavík. Það er í samræmi við þær reglur sem sóttvarnalæknir lagði til og voru samþykktar af heilbrigðisráðherra að sögn Steinþórs Einarssonar, forstöðumanns íþrótta- og tómstundasviðs Reykjavíkurborgar.
Hann segir að takmarkanirnar sem taka gildi á miðnætti kveði á um að 50% þess fjölda sem laugar borgarinnar taki við í eðlilegu árferði verði hleypt ofan í.
„Þetta miðast bara við 50% af því hámarki sem annars má fara ofan í,“ segir Steinþór í samtali við mbl.is. „Við förum í rauninni bara eftir skápafjölda og Laugardalslaugin er náttúrlega langstærst og þess vegna mega langflestir fara þar ofan í í einu,“ bætir hann við.
Reglurnar gilda fyrir allar aðrar laugar landsins og segir Stefán að laugar Reykjavíkur hafi undanfarið miðað við að hleypa aðeins ofan í laugina því sem nemur 75% af leyfi sundlauganna. Frá og með morgundeginum verður það svo aðeins 50% eins og áður segir.
Þannig verður aðeins 115 hleypt ofan í í einu í Vesturbæjarlaug, 192 í Breiðholtslaug og 120 í Árbæjarlaug og Sundhöll Reykjavíkur svo dæmi séu tekin.