Skemmdaverk unnin á umdeildum strætó

Skemmdarverk var unnið á strætisvagni með umdeildri Jesúmynd.
Skemmdarverk var unnið á strætisvagni með umdeildri Jesúmynd. Ljósmynd/Strætó

„Maður veit að þetta er umdeild mynd en það er ekkert sem réttlætir svona gjörning,“ segir Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, um skemmdarverk sem unnin voru á umdeildri mynd af Jesú á einum vagna fyrirtækisins, þekkta undir nafninu „Trans-Jesú".

Filman var rifin af strætisvagni í skjóli aðfararnætur sunnudags og má af myndinni ráða að um viljaverk hafi verið að ræða; andlit Jesú og brjóst eru hvergi lengur sjáanleg auk þess sem skemmdarvargurinn virðist einnig hafa gert atlögu að hnéi Jesú.

Verknaðurinn dugar þó skammt - Strætó hefur þegar pantað viðgerð og snýr Jesúmyndin aftur á vagninn í upprunalegri mynd á morgun.

„Kirkjan keypti auglýsinguna til átta vikna svo þetta er ekki eitthvað sem á eftir að stoppa okkur,“ segir Guðmundur.

Líklegt er að sá sem var að verki sé á fullorðinsaldri þar sem barn ætti erfitt með að vinna skemmdir í þeirri hæð sem sést, en svæðið er vaktað og er því líklegt að upptökur séu til af verknaðinum.

„Við erum að rannsaka þetta núna. Þetta gerðist bara í nótt þegar búið var a þvo hann. Þetta er greinilega einbeittur brotavilji. Það er ekkert sem er tekið af vagninum nema andlitið af myndinni og brjóstin,“ segir Guðmundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert