Veittu leigubílstjórum tiltal og kærðu fjóra

Lögreglan hafði sérstakt eftirlit með leigubílstjórum í gærkvöldi og í …
Lögreglan hafði sérstakt eftirlit með leigubílstjórum í gærkvöldi og í nótt. Ljósmynd/Lögreglan

Lögreglan var með eftirlit með leigubílstjórum í miðborginni í gær og í nótt eftir að hafa séð frekar slæma umferðarhegðun sumra þeirra í eftirlitsmyndavélum miðborgarinnar. Í dagbók lögreglu kemur fram að þar hafi menn sést aka ítrekað eftir gangstéttum, göngugötum, stoppa á gatnamótum og trufla umferð.

Var brugðist við þessu með því að veita nokkrum ökumönnum tiltal, en fjórir voru auk þess kærðir þar sem brot þeirra þóttu gróf.

Beinir lögreglan því til atvinnuökumanna að sömu reglur gildi um þá og aðra ökumenn og það að aka eða stoppa á gangstéttum, aka eftir göngugötum eða trufla umferð með ýmsum hætti sé ekki heimilt samkvæmt núgildandi umferðarlögum. Bent er á að sérstök bílastæði séu fyrir leigubifreiðar á að minnsta kosti tveimur stöðum í miðborginni þar sem ætlast er til þess að notendur bifreiðanna komi til að þiggja þjónustu. Séu þessi bílastæði full af leigubifreiðum verða leigubílstjórar að nota nærliggjandi bílastæði sem ætlað er ökutækjum.

Tekur lögreglan einnig fram að gangandi vegfarandi hafi sagt lögreglu frá framferði leigubílstjóra sem ekki væri til fyrirmyndar. Hann hafi komið akandi eftir göngugötu og gargað á hann að drulla sér burt af göngugötunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert