Þeim farþegum sem ekki hafa borið grímu hefur ekki verið vísað úr strætó í morgun. Flestir hafa þó verið með grímu. Þetta segir Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó.
Tilkynnt var um grímuskyldu í strætó seint í gærkvöldi þar sem kemur fram að viðskiptavinum sem ekki bera grímu sé óheimilt að nota strætó. Guðmundur segir að vegna þess að aðlögunartíminn var stuttur hafi vagnstjórar bent fólki í morgun á að mæta næst með grímu í stað þess að vísa því úr vögnunum.
Guðmundur segist hafa fengið upplýsingar um nýju reglugerðina um níuleytið í gærkvöldi. Ekkert hafi verið minnst á strætó í auglýsingu ráðherra sem birtist fyrr um daginn. „Við þurfum að reyna að gera eins gott úr þessu og við getum en þetta er óþægilegt fyrir okkur,“ segir Guðmundur.
Hann minnir farþega í strætó á að bera persónulega ábyrgð á eigin sóttvörnum. Ekki þýði að láta vagnstjórann sjá um að fylgjast með öllu í tengslum við þær.