Utanríkisráðuneytið hefur sent bréf til sendiherra Kína á Íslandi þar sem komið er á framfæri athugasemdum við rafræna vöktun á vegum sendiráðs Kína í Bríetartúni í Reykjavík.
Þetta staðfestir Sveinn Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins. Bréfið var sent til sendiráðsins á föstudaginn og svar hefur ekki borist.
Í bréfi Persónuverndar til utanríkisráðuneytisins, dagsett 9. september, kemur fram að mat stofnunarinnar sé að hún geti ekki aðhafst frekar í málinu. Því var athygli ráðuneytisins vakin á því.
Í ábendingu sem barst Persónuvernd kom fram að myndavélar á vegum sendiráðsins vöktuðu svæði sem færi verulega út fyrir lóðamörk sendiráðsins og næðu þannig yfir óþarflega víðtækt svæði.