Heilbrigðisráðuneytið hefur í samvinnu við Landspítala, aðrar heilbrigðisstofnanir og hjúkrunarheimili unnið að því að létta álagi af Landspítala með því að flytja þaðan sjúklinga sem hægt er að sinna annars staðar sem eru einkum aldraðir hjúkrunarsjúklingar. Frá því um nýliðin mánaðamót hafa rúmlega 20 sjúklingar verið færðir frá spítalanum til annarra stofnana og unnið er að fleiri lausnum í þessu skyni.
Eins og ítrekað hefur komið fram í fréttum er staðan á Landspítala þung vegna COVID-19. Þar hefur þurft að loka deildum vegna smita og sóttkvíar starfsfólks. Í gær lágu 13 sjúklingar inni á spítalanum vegna COVID-19, þar af þrír á gjörgæslu og tveir í öndunarvél. Á göngudeild COVID-19 voru 612 sjúklingar í eftirliti. Alls voru 59 starfsmenn í sóttkví og 40 starfsmenn í einangrun, að því er segir á vef heilbrigðisráðuneytisins.
Heilbrigðisráðuneytið er í reglubundnu sambandi við heilbrigðisstofnanir í nágrenni höfuðborgarsvæðisins um aðstoð vegna útskriftarvanda á Landspítala og hefur samstarfið skilað góðum árangri. Unnið er að fleiri lausnum sem miða að því að flytja frá Landspítala sjúklinga sem hafa lokið þar meðferð en geta ekki útskrifast heim, eða er hægt að sinna annars staðar.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir sem aldrei fyrr mikilvægt að stofnanir heilbrigðiskerfisins vinni saman til að mæta þeim vanda sem COVID-19 veldur. Ljóst sé að álagið eigi enn eftir að aukast á Landspítala í kjölfar mikils fjölda smita að undanförnu og því þurfi allir að leggjast á eitt til að tryggja öllum sem þurfa nauðsynlega heilbrigðisþjónustu, segir enn fremur.