Smærri líkamsræktarstöðvar krefjast svara

Ketilbjöllur eru vinsælar á líkamsræktarstöðvum.
Ketilbjöllur eru vinsælar á líkamsræktarstöðvum. mbl.is/​Hari

Eigendur fjórtán smærri líkamsræktarstöðva hafa sent opið bréf til stjórnvalda þar sem lokun allra líkamsræktarstöðva á landinu til að stöðva útbreiðslu kórónuveirunnar er gagnrýnd.

„Á sama tíma og við reynum að sýna þeim aðgerðum sem yfirvofandi eru skilning hörmum við að skella eigi öllum fyrirtækjum landsins sem flokkast sem líkamsræktarstöð í lás,“ segir í bréfinu, þar sem talað er um mikilvægi andlegrar og líkamlegrar heilsu fyrir almenning, m.a. til að styrkja ónæmiskerfið.

Fram kemur að líkamsræktarstöðvar séu jafn ólíkar og þær eru margar og að ákvörðunin um að loka öllum stöðvum á Íslandi virðist að mörgu leyti aðeins hafa miðast við stærstu stöðvarnar. Það sé óásættanlegt, enda ákvörðunin íþyngjandi.

„Stöðvar undirritaðra eiga það allar sameiginlegt að vera litlar og leggja áherslu á hóptíma þar sem alltaf er þjálfari til staðar. Tiltölulega fáir eru í hverjum tíma og það er mjög auðvelt að halda a.m.k. tveggja metra fjarlægð í sér lokuðu rými. Auðvelt er að fylgja öllum sóttvarnareglum og sjónarmiðum en mikilvægt er að benda á að það hefur verið gert samviskusamlega í okkar stöðvum síðan í mars og gengið án allra vandkvæða,“ segir í bréfinu.

mbl.is/Kristinn Magnússon

„Á ekki við nein rök að styðjast“

Einnig segir þar að út frá sóttvarnasjónarmiðum sé einkennilegt að banna líkamsræktarstöðvar sem eiga auðvelt með að fylgja sóttvarnareglum á meðan aðrar hópíþróttir fullorðinna eru leyfðar, þar sem að hámarki 50 manns mega koma saman með óumflýjanlegri snertingu fólks í mörgum þeirra. Sömuleiðis er minnst á hóptíma hjá sjúkraþjálfurum og sundlaugar.

„Þá eru sundlaugar sömuleiðis opnar þar sem allt að 350 manns mega koma saman og engin leið er að virða fjarlægðartakmörk eða sameiginlega snertifleti. Augljóslega á þetta ekki við nein rök að styðjast,“ segir í bréfinu þar sem óskað er eftir svörum með ítarlegum rökum og beðið um að ákvörðunin um lokun verði endurskoðuð sem fyrst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert