Embætti héraðssakóknara hefur ákært tvo karla og eina konu fyrir meiri háttar skattalagabrot í rekstri bakarísins Kornsins og annarra félaga í þeirra eigu. Nema meint brot þremenninganna við rekstur félaganna tugum milljóna. Þá eru þau jafnframt ákærð fyrir að hafa persónulega komið sér hjá því að telja fram samtals um 115 milljónir í tekjuskatt á fjögurra ára tímabili og þannig komið sér hjá því að greiða um 45 milljónir í tekjuskatt og útsvar.
Málið var þingfest á fimmtudaginn, en öll hin ákærðu neituðu sök.
Kornið var stofnað árið 1981 af hjónunum Ragnheiði Brynjólfsdóttur og Jóni Þorkatli Rögnvaldssyni. Sonur þeirra, Rögnvaldur Þorkelsson, sá um rekstur fyrirtækisins áður en þau seldu það í febrúar 2017 til fjárfestingafélagsins Investor, sem er í eigu fjárfesta sem eru ótengdir fyrri eigendum. Fljótlega komu upp rekstrarerfiðleikar og stöðvaði bakaríið alla starfsemi sína í desember 2018, en Kornið rak þegar mest var 12 útsölustaði á höfuðborgarsvæðinu og bakarí í Hjallabrekku.
Það eru fyrrnefndur Rögnvaldur, en hann er sagður raunverulegur framkvæmdastjóri í ákærunni, auk Kristínar Jóhannesdóttur, fyrrverandi daglegs stjórnanda og prókúruhafa Kornsins, og Sigurður Pétur Hauksson, sem gaf út reikninga fyrir fyrirtækið PC-tölvan, sem eru ákærð í málinu.
Í ákærunni kemur fram að Rögnvaldur og Kristín hafi oftalið rekstrargjöld í bókhaldi Kornsins á árunum 2013-2016 upp á 88 milljónir, en það var gert með tilhæfulausum reikningum frá PC-tölvunni. Var innskattur á þessu tímabili offramtalinn um 21,7 milljónir. Er Sigurður ákærður fyrir að hafa aðstoðað þau með því að gefa út reikningana.
Þau eru jafnframt ákærð svipuð brot hjá öðru einkahlutafélagi þar sem PC-tölvan gaf út tilhæfulausa reikninga og voru rekstrargjöld þar oftalin um 14,4 milljónir og innskattur offramtalinn um 3,6 milljónir.
Þremenningarnir eru sem áður segir einnig ákærðir fyrir að hafa sjálfir vantalið tekjur á sömu árum. Er Rögnvaldur ákærður fyrir að hafa ekki gefið upp 73,1 milljónar tekjur og þannig komist hjá að greiða 31,9 milljónir í skatt. Kristín er ákærð fyrir að hafa ekki gefið upp 23,9 milljóna tekjur og þar með komist hjá að greiða 10,5 milljónir í skatt og Sigurður fyrir að hafa ekki gefið upp 15,2 milljónir og komist hjá að greiða 3,7 milljónir.