99 innanlandssmit í gær

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Alma Möller landlæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Alma Möller landlæknir. Ljósmynd/Lögreglan

Alls greindust 99 innanlandssmit kórónuveirunnar í gær og af þeim voru 59 í sóttkví. Eitt smit greindist á landamærunum.

Þetta segir Jóhann K. Jóhannsson, samskiptastjóri almannavarna, í samtali við mbl.is.

Þetta er fjölgun um 40 smit frá því í fyrradag og mesti fjöldi sem greinst hefur á einum degi síðan 1. apríl í vor þegar jafn mörg ný smit greindust. Aðeins einu sinni hafa fleiri greinst, en það var 24. mars þegar 106 ný smit greindust sama daginn.

Fundur stýrihóps hefur farið fram í morgun út af þessum háu tölum og hafa menn að vonum áhyggjur af þróuninni, bætir hann við. Til umræðu er hvort gripið verði til frekari viðbragða vegna útbreiðslu smita.

Landlæknir, sóttvarnalæknir, Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn, ríkislögreglustjóri, ráðuneytisstjórar heilbrigðis- og dómsmálaráðuneytis og verkefnastjóri hjá forsætisráðuneytinu sitja fundinn, sem enn er í gangi.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort upplýsingafundur verður haldinn í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert