Getum beygt veiruna en ekki upprætt hana

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir var gestur Kastljóss í kvöld.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir var gestur Kastljóss í kvöld. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Þórólf­ur Guðna­son sótt­varna­lækn­ir var gest­ur Kast­ljóss í kvöld þar sem hann sagði að hann héldi að kór­ónu­veiru­bylgj­an, sem nú geng­ur yfir, yrði erfiðari viður­eign­ar en sú fyrsta. Veir­an sé dreifðari og því geti verið erfiðara að upp­ræta hana með sama hætti og gert var í vor. Hann seg­ir skilj­an­legt að fólk sé orðið þreytt á veirunni en minn­ir á að Íslend­ing­ar hafi átt frjáls­legra sum­ar en marg­ar aðrar þjóðir.

Það má dæma af orðum sótt­varna­lækn­is í Kast­ljósi að ekki verði hægt að út­rýma veirunni úr sam­fé­lag­inu líkt og gert var í fyrr bylgj­unni. Veir­an sé dreifðari og erfiðari viðfangs.

Erfiðara nú en í vet­ur

„Ég held að þessi bylgja núna verði erfiðari en bylgj­an fyrr í vet­ur og ég byggi það á því að fyrsta bylgj­an var allt öðru­vísi, hún kom miklu hraðar inn með stór­um förm­um í flug­vél­um af fólki sem var að koma úr Ölp­un­um. Í vet­ur vor­um við fyrst og fremst að sjá smit inn­an fjöl­skyldna og þá náðum við þeim hóp­um til­tölu­lega fljótt í sótt­kví. Það náðist að stoppa þá bylgju af miklu fyrr.

Núna er þessi veira búin að hreiðra um sig miklu víðar. Hún er svona að skjóta upp koll­in­um hér og þar, mest hérna á höfuðborg­ar­svæðinu en líka úti á landi, þannig að ég held að það verði erfiðara að ná utan um hana.

Ég held að við get­um beygt hana niður en ég er ekki svo viss um að við get­um upp­rætt hana eins og við gerðum síðastliðinn vet­ur en ég vona svo sann­ar­lega að það sé ekki rétt hjá mér og við náum því,“ sagði Þórólf­ur.

„Ég hef sagt það og haldið því fram að von­andi sæj­um við bara svona litl­ar sveifl­ur í far­aldr­in­um en það hef­ur svo sann­ar­lega ekki reynst vera rétt,“ sagði Þórólf­ur þegar hann var spurður hvort aðstæðurn­ar núna væru ekki akkúrat þær sem von­ast var til að myndu ekki skap­ast.

Al­menn­ing­ur verði að „spila með“

Þórólf­ur seg­ir að hann finni nú auk­inn meðbyr í þjóðfé­lag­inu líkt og var í fyrstu bylgju þegar al­menn­ing­ur virt­ist taka virk­ari þátt í þeim sótt­varnaaðgerðum sem giltu. Hann seg­ir það hlut­verk sótt­varna­yf­ir­valda, og þar með hlut­verk sitt, að fá al­menn­ing með í lið til þess að ráða niður­lög­um veirunn­ar.

„Ef fólk spil­ar ekki með og tek­ur þessu ekki al­var­lega þá mun­um við ekki ná ár­angri. Það er al­veg ör­uggt mál. All­ir vilja bara fá gamla lífið sitt aft­ur,“ sagði Þórólf­ur um viðbrögð margra við þeim hertu aðgerðum sem tóku gildi í gær. „Fólk er orðið þreytt á þessu.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert