Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segist ekki hafa haft orð á því að í vinnslu hérlendis væri verklag sem hún segir að í umræðu hafi verið kallað „brottvísunarbúðir“.
Þetta skrifar ráðherrann á Facebook og vísar til þess þegar hún var í gær, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi, spurð um verklag við brottvísun einstaklinga sem dveljast ólöglega í landinu.
„Ég sagði að slíkt verklag væri alltaf í skoðun,“ skrifar Áslaug og bendir á að hún hafi vísað til þeirrar framkvæmdar „sem nær öll Evrópuríki, þ.á m. Norðurlöndin, grípa til þegar búið er að taka ákvörðun um brottvísun. Ég hafði þó ekki orð á því að slíkt verklag sem í umræðunni var kallað „brottvísunarbúðir“ væri í vinnslu hérlendis“.
Staðreyndin sé á hinn bóginn sú að samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins skuli vera til staðar slíkt búsetuúrræði þegar öll önnur vægari úrræði séu tæmd.
„Við höfum ekki innleitt þá tilskipun að fullu þrátt fyrir skuldbindingar þess eðlis í Schengen-samstarfinu,“ skrifar ráðherrann.
„Það hvernig við tökum á móti fólki og það hvernig við búum í haginn fyrir þá sem ýmist eru að bíða eftir afgreiðslu eða hafa fengið niðurstöðu er hvort tveggja meðal þeirra brýnu verkefna sem við þurfum að skoða nánar og sem verður að vera hægt að ræða af yfirvegun.
Við viljum öll vanda okkur í þessum viðkvæmu málum, þá sérstaklega þegar málin snúa að börnum. Þar þarf hvort tveggja í senn að móta heildarstefnu sem hægt er að koma sér saman um og eins að finna lausnir á praktískum atriðum. Allt er þetta í samræmi við það sem ég hef áður sagt.“