Merkingar á ungum hafarna með leiðarritum hafa gefið mikilvægar upplýsingar um ferðir þeirra og háttalag.
Nú bera tólf ungir ernir slík tæki og segir Kristinn Haukur Skarphéðinsson, dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun, að skráningar frá þessum sendum gefi mikilsverðar upplýsingar um það skeið í lífi fuglanna, sem minnstar upplýsingar hafi verið um.
Í pistli Jóns Gunnars Ottóssonar forstjóra í nýútkominni ársskýrslu Náttúrufræðistofnunar fyrir 2019 er fjallað um þessar rannsóknir. Þar kemur fram að hafernir hafa verið merktir hér á landi í stórum stíl, fyrst með hefðbundnum málmmerkjum en síðar með sérstökum litmerkjum, sem geri kleift að greina einstaklinga á færi. Yfir 98% arnarunga sem komist hafi á legg frá og með 2004 hafi verið litmerkt og hafi þeir margir skilað sér inn í varpstofninn, svo nú sé um helmingur varpfuglanna litmerktur.
Ernir fari yfirleitt ekki að verpa fyrr en 5-7 ára gamlir og til þess að varpa skýrara ljósi á búsvæðanotkun ungra arna hafi leiðarritar (gps-loggers) verið settir á unga sumarið 2019, í fyrsta sinn hér á landi, segir í pistli Jóns Gunnars, sem um er fjallað í Morgunblaðinu í dag.