Sótthreinsa bílinn eftir hverja ferð

Sótthreinsa þarf alla sjúkrabíla á milli flutninga með sjúklinga sem …
Sótthreinsa þarf alla sjúkrabíla á milli flutninga með sjúklinga sem veikir eru af veirunni. Eggert Jóhannesson

Aukið álag er á sjúkraflutningamönnum vegna veirufaraldursins. Ekki síst vegna þess að þeir þurfa að skipta um búnað og sótthreinsa sjúkrabílinn eftir hvern flutning með sjúkling sem þjáist af kórónuveirunni. Slökkviliðsstjóri segir að ekki megi mikið út af bregða svo röskun verði á þjónustu. 

„Það er klárlega mikið álag. Sérstaklega vegna Covid-flutinganna. Þeir eru flóknari og umfangsmeiri en aðrir flutningar,“ segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu. „Það þarf meiri viðbúnað. Þú þarft að klæða þig í viðeigandi búnað og svo þarf að sótthreinsa bílana áður en þeir eru notaðir aftur,“ segir Jón Viðar. 

Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri
Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri

Hann segir að sjúkraflutningamenn þurfi einnig að skipta um hlífðarfatnað eftir hvern flutning. „Allt verður umfangsmeira, hver flutningur tekur lengri tíma en venjulega, undirbúningur er meiri og eftirvinnan líka,“ segir Jón Viðar.  

Ekki má mikið út af bregða

Hann segir að vegna þessa mikla viðbúnaðar sé afkastagetan minni en venja er. „Sem betur fer hefur byggst upp þekking og reynsla á því hvernig við eigum að fást við þetta en það má ekki mikið út af bregða svo það verði röskun á okkar þjónustu,“ segir Jón Viðar. 

Hingað til hefur megnið af flutningum ekki verið vegna mjög veikra einstaklinga og ekki hefur þurft að grípa til sérstaks hylkis sem notað var í fyrstu bylgjunni til að flytja fólk á sjúkrastofnanir. „Það er einnig aukið álag því starfsmenn þurfa að passa sig vel, að þeir færi ekki smit á milli sjúklinga,“ segir Jón Viðar. Hann segir að ekki hafi komið upp tilvik þar sem smit hafi borist á milli fólks. Hvorki til starfsmanna né til annarra en Covid-sjúklinga sem verið er að flytja.

Þá segir hann að lítið hafi verið um forföll í starfsliðinu.  „Við höfum í raun verið ótrúlega lánsöm með það hversu fáir hafa þurft að fara í einangrun eða sóttkví,“ segir Jón Viðar.

Í fyrstu bylgjunni var notað við svokallað húdd. Sérstakt hylki …
Í fyrstu bylgjunni var notað við svokallað húdd. Sérstakt hylki til að flytja suma sjúklinga. Ljósmynd/Þorkell Þorkellson


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert