„Það hefur verið mikið að gera, já“

Sýnataka við Suðurlandsbraut.
Sýnataka við Suðurlandsbraut. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikil fjölgun hefur orðið í einkennasýnatöku að sögn forstjóra Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Um 1.500 manns fara nú í einkennasýnatöku á dag sem er um helmingi meira en fyrir viku.

„Það hefur verið mikið að gera, já,“ segir Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is. Óskar segir að mikil aukning hafi verið á einkennasýnatökum, þ.e. að þeir sem telja sig hafa einkenni kórónuveirunnar bóki skimun hjá Heilsugæslunni. 

„Við vorum að fá líklega svona 7-800 manns á dag í einkennasýnatökur í síðustu viku en nú koma ríflega 1.500 manns á dag,“ segir Óskar. Þá séu nokkur hundruð til viðbótar sem fari í sýnatöku við lok sóttkvíar á hverjum degi. 

Þeir sem bóka snemma fara oftast samdægurs

Óskar segir að þeir sem bóki einkennasýnatöku snemma dags geti átt von á því að komast í skimun samdægurs þótt engin eiginleg regla sé á því.

„Til að skipuleggja þetta sem best höfum við reynt að boða þá, sem bóka einkennasýnatöku fyrir hádegi, í skimun samdægurs. Svo þeir sem bóka síðar yfir daginn fara yfirleitt snemma daginn eftir. Ef fólk er svo með mikil eða alvarleg einkenni þá er auðvitað tekið á því alveg sérstaklega.“

Óskar Reykdalsson, forstjóri heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Óskar Reykdalsson, forstjóri heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Ljósmynd/Lögreglan

Fólk fær niðurstöður misfljótt

Heyrst hefur af því að fólk sem fer í skimun á sama tíma dags fái ekki niðurstöður á sama tíma. Þannig fóru tveir einstaklingar með nokkurra mínútna millibili í skimun í gær en fengu niðurstöðu með nokkurra klukkustunda millibili.

Spurður hvað geti valdið misræmi á þeim tíma sem tekur að fá niðurstöður skimunar segir Óskar að margt geti spilað þar inn í.

„Það er auðvitað óvenjulegt að tveir einstaklingar sem fara nánast á sama tíma í skimun fái niðurstöður með nokkurra klukkustunda millibili. Það er unnið úr sýnum í hollum og sýni geta því raðast í mismunandi holl eftir því. Það er margt sem getur legið að baki einhverju svona misræmi en það er miðað við að fólk fái niðurstöður samdægurs.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert