Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur lagt fram tillögur um enn frekari sóttvarnaaðgerðir á höfuðborgarsvæðinu. Tillögur sóttvarnalæknis kveða meðal annars á um:
Þá er þeim tilmælum beint til íbúa höfuðborgarsvæðisins að halda sig heima eins og unnt er. Þeir sem geti vinni að heiman og fólk dragi úr heimsóknum til viðkvæmra einstaklinga eins og unnt er. Eins vilja sóttvarnayfirvöld að einungis einn einstaklingur á hverju heimili fari í verslanir þar sem það er hægt.
Þórólfur segir það vonbrigði að til hertra aðgerða á höfuðborgarsvæðinu þurfi að koma. Árangur af aðgerðunum muni koma í ljós eftir eina til tvær vikur og því megi búast við að lítil breyting verði á faraldrinum þangað til.
Þá segir Þórólfur að nauðsynlegt sé að grípa til harðari aðgerða þar sem faraldurinn er í veldisvexti. Með þessum nýjum aðgerðum sé horft til þess að fækka smitum og verja Landspítalann fyrir frekara álagi.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn sagði að gríðarlegt álag væri á smitrakningarteymi almannavarna. Nú eru um 75 hjúkrunarfræðingar og lögreglumenn að störfum við smitrakningu og segir Víðir að fjöldi fólks hafi boðið fram aðstoð.
Hins vegar verði að fylgja verkferlum um smitrakningu sem kveði á um að aðeins lögreglumenn og hjúkrunarfræðingar megi sinna smitrakningu. Hann þakkar þó þeim sem boðist hafa til að aðstoða.
Þá segir Víðir einnig að farsóttarhús Rauða krossins séu orðin full og unnið sé að því að fjölga rýmum.