Alls hafa 70 nemendur í Klettaskóla, sérskóla í Reykavík fyrir börn með þroskahömlun, verið sendir í sóttkví vegna smita hjá tveimur nemendum og þremur starfsmönnum við skólann, að því er Arnheiður Helgadóttir, skólastjóri Klettaskóla, staðfestir í samtali við mbl.is.
Starfsmaður félagsmiðstöðvarinnar Öskju, fyrir nemendur á mið- og unglingastigi Klettaskóla, greindist með veiruna á föstudag og eru þrír starfsmenn skólans, þar af einn í Öskju, nú í einangrun með staðfest smit. Í gær greindust nemendurnir tveir með veiruna.
Um 130 nemendur stunda nám við skólann en honum hefur ekki verið lokað að sögn Arnheiðar. Eru nemendur ýmist í hefðbundinni sóttkví eða úrvinnslusóttkví og munu því einhverjir snúa aftur í skólann á mánudag.