793 sjúklingar eru í eftirliti Covid-19-göngudeildar og 18 inniliggjandi á spítalanum, þar af fjórir á gjörgæslu og þrír í öndunarvél. Þá eru 37 starfsmenn spítalans í einangrun og 72 starfsmenn í sóttkví A. Þetta kemur fram í tilkynningu frá viðbragðsstjórn og farsóttanefnd Landspítala.
Þar er einnig farið yfir starfsemi göngudeilda Landspítala en þar er mælst til þess að sem flestum sé sinnt með rafrænum hætti. Sé það ekki mögulegt er þess t.a.m. óskað að sjúklingar bíði utan Landspítala, t.d. í bíl, og séu kallaðir inn í bygginguna þegar þeirra tími nálgast. Er þetta gert til að koma í veg fyrir hópamyndun á biðstofu.
Þá beinir Landspítali því til fólks að leita ekki á bráðamóttöku með einkenni sem kunna að benda til Covid-19 heldur hafa samband við sína heilsugæslustöð símleiðis eða í gegnum Heilsuveru.
Einnig er vakin athygli á því að í samræmi við tilmæli sóttvarnalæknis verði starfsfólk að takmarka störf sín við einn vinnustað.
„Starfsfólk getur því ekki sinnt störfum á Landspítala og á öðrum stofnunum, s.s. hjúkrunarheimili, heimahjúkrun, sambýli eða öðrum sambærilegum stofnunum. Sama gildir um nema í klínísku námi á Landspítala er starfa á öðrum stofnunum, sbr. hér að framan. Áfram er heimilt að sinna störfum/námi á fleiri en einni vinnustöð innan Landspítala enda sé öllum sóttvarnaráðstöfunum fylgt.“
Eins og áður hefur komið fram er Landspítali nú á hættustigi vegna Covid-19.
„Viðbragðsáætlun Landspítala vegna farsótta hefur því verið virkjuð og funda viðbragðsstjórn og farsóttanefnd daglega. Allar ákvarðanir vegna sóttvarna og takmarkana þeim tengdra eru teknar á þeim miðlæga vettvangi og eru starfsmenn og stjórnendur hvattir til að kynna sér nýjustu ákvarðanir á degi hverjum á innri upplýsingavefjum spítalans.“