Air Iceland Connect flýgur til Eyja næsta vor

Air Iceland Connect hyggst fljúga til Vestmannaeyja næsta vor.
Air Iceland Connect hyggst fljúga til Vestmannaeyja næsta vor.

Stjórnendur Air Iceland Connect hafa ákveðið að hefja áætlunarflug til Eyja næsta vor. Þetta kom fram á fundi bæjarráðs Vestmannaeyja, sem fram fór í dag. Þá hefur Isavia ákveðið að draga boðaðar uppsagnir starfsmanna sinna í Vestmannaeyjum til baka og fresta ákvörðun um breytt starfsmannahald á vellinum til næsta vors.

Í fundargerð bæjarráðs segir að Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyja og Njáll Ragnarsson, formaður bæjarráðs, hafi undanfarna daga átt í samskiptum við fulltrúa Isavia vegna fyrirhugaðra uppsagna starfsmanna félagsins á Vestmannaeyjaflugvelli, og gott samtal hafi verið á milli aðila.

Þá hafi bæjarstjóri verið í samskiptum við fulltrúa flugfélaganna undanfarinn mánuð, þar á meðal Air Iceland Connect um mögulegt áætlunarflug til Vestmannaeyja á markaðsforsendum. Segir í fundargerðinni að stjórnendur flugfélagsins líti á Vestmannaeyjar „sem spennandi viðbót við áfangastaði þeirra“ og hafa ákveðið að hefja áætlunarflug til Eyja næsta vor.

„Í þessu felast mikil tækifæri til kynningar á Vestmannaeyjum sem áfangastað, bæði fyrir innlendum sem og erlendum ferðamönnum. Einnig skiptir miklu máli fyrir Vestmannaeyinga að áætlunarflug hefjist aftur,“ segir m.a. í fundargerðinni.

Fundargerð bæjarráðs 7. október 2020

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert