Stjórnendur Air Iceland Connect hafa ákveðið að hefja áætlunarflug til Eyja næsta vor. Þetta kom fram á fundi bæjarráðs Vestmannaeyja, sem fram fór í dag. Þá hefur Isavia ákveðið að draga boðaðar uppsagnir starfsmanna sinna í Vestmannaeyjum til baka og fresta ákvörðun um breytt starfsmannahald á vellinum til næsta vors.
Í fundargerð bæjarráðs segir að Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyja og Njáll Ragnarsson, formaður bæjarráðs, hafi undanfarna daga átt í samskiptum við fulltrúa Isavia vegna fyrirhugaðra uppsagna starfsmanna félagsins á Vestmannaeyjaflugvelli, og gott samtal hafi verið á milli aðila.
Þá hafi bæjarstjóri verið í samskiptum við fulltrúa flugfélaganna undanfarinn mánuð, þar á meðal Air Iceland Connect um mögulegt áætlunarflug til Vestmannaeyja á markaðsforsendum. Segir í fundargerðinni að stjórnendur flugfélagsins líti á Vestmannaeyjar „sem spennandi viðbót við áfangastaði þeirra“ og hafa ákveðið að hefja áætlunarflug til Eyja næsta vor.
„Í þessu felast mikil tækifæri til kynningar á Vestmannaeyjum sem áfangastað, bæði fyrir innlendum sem og erlendum ferðamönnum. Einnig skiptir miklu máli fyrir Vestmannaeyinga að áætlunarflug hefjist aftur,“ segir m.a. í fundargerðinni.
Fundargerð bæjarráðs 7. október 2020