„Algjör sprenging í sölu á grímum“

Grímur hafa selst vel hjá rekstrarvörum.
Grímur hafa selst vel hjá rekstrarvörum. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Sal­an hjá okk­ur hef­ur verið al­veg virki­lega góð. Mesta aukn­ing­in er í grím­um. Við finn­um að fólk er orðið mjög meðvitað og er að hlusta á frétt­irn­ar. Það er að skap­ast ákveðin grímu­hefð,“ seg­ir Ein­ar Kristjáns­son, fram­kvæmda­stjóri Rekstr­ar­vara, í sam­tali við mbl.is. 

Að hans sögn hef­ur grímu­sala auk­ist svo um mun­ar síðustu vik­ur. Þá hef­ur sala á spritti og öðrum sótt­varna­vör­um sömu­leiðis auk­ist veru­lega. „Það er al­gjör spreng­ing í sölu á grím­um. Ég hef ekki tekið sam­an ná­kvæm­ar töl­ur en það er gríðarlega mikið að gera hjá okk­ur. Aukn­ing­in er alla­vega meiri en nokkr­ir tug­ir pró­senta,“ seg­ir Ein­ar. 

Heims­skort­ur á hönsk­um

Seg­ir hann að þeim fjölgi ört sem nú noti grím­ur. „Við heyr­um að fólk vilji nota grímu þegar það fer út í versl­un. Ef þú ert ekki með grímu í búðinni þá færðu jafn­vel svip­inn,“ seg­ir Ein­ar sem kveðst aðspurður ekki hafa áhyggj­ur af því að grím­ur selj­ist upp. Birgðastaða fyr­ir­tæk­is­ins sé mjög góð. 

„Við erum með mjög góða birgðastöðu. Það eina sem við ráðum ekki við er það sama og aðrir birgjar; hansk­ar. Það er heims­skort­ur á hönsk­um og af þeim sök­um hafa þeir hækkað ískyggi­lega mikið í verði. Það er helst sá markaður sem er í smá vand­ræðum enda ná þeir ekki að anna eft­ir­spurn.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert