„Salan hjá okkur hefur verið alveg virkilega góð. Mesta aukningin er í grímum. Við finnum að fólk er orðið mjög meðvitað og er að hlusta á fréttirnar. Það er að skapast ákveðin grímuhefð,“ segir Einar Kristjánsson, framkvæmdastjóri Rekstrarvara, í samtali við mbl.is.
Að hans sögn hefur grímusala aukist svo um munar síðustu vikur. Þá hefur sala á spritti og öðrum sóttvarnavörum sömuleiðis aukist verulega. „Það er algjör sprenging í sölu á grímum. Ég hef ekki tekið saman nákvæmar tölur en það er gríðarlega mikið að gera hjá okkur. Aukningin er allavega meiri en nokkrir tugir prósenta,“ segir Einar.
Segir hann að þeim fjölgi ört sem nú noti grímur. „Við heyrum að fólk vilji nota grímu þegar það fer út í verslun. Ef þú ert ekki með grímu í búðinni þá færðu jafnvel svipinn,“ segir Einar sem kveðst aðspurður ekki hafa áhyggjur af því að grímur seljist upp. Birgðastaða fyrirtækisins sé mjög góð.
„Við erum með mjög góða birgðastöðu. Það eina sem við ráðum ekki við er það sama og aðrir birgjar; hanskar. Það er heimsskortur á hönskum og af þeim sökum hafa þeir hækkað ískyggilega mikið í verði. Það er helst sá markaður sem er í smá vandræðum enda ná þeir ekki að anna eftirspurn.“