„Það kemur mér svolítið á óvart að Disney skuli ekki gera betur en þetta. Fyrirtækið á efnið tilbúið. Ég sé ekki hvert vandamálið er,“ segir Bjarki Gunnarsson, framleiðslustjóri hjá Myndform.
Streymisveitan Disney+ hóf innreið sína á íslenskan markað í haust og þar er hægt að nálgast hundruð kvikmynda og þúsundir sjónvarpsþátta úr smiðju Disney, Marvel og fleiri. Athygli hefur vakið að þar er ekki hægt að nálgast íslenskar talsetningar á þekktum kvikmyndum. Yngri kynslóðin getur því ekki horft á Aladdín, Lion King og fleiri sígildar myndir á íslensku á Disney+.
Bjarki segir að það veki furðu að efni sem þegar hefur verið talsett og Disney á allan rétt á skuli ekki vera notað. Myndform og fleiri fyrirtæki hafa talsett efni fyrir Disney í gegnum tíðina. „Það ætti ekki að vera neitt því til fyrirstöðu. Ísland er lítill markaður og ég held að fyrirtækið sé ekkert að fókusera á hann. Þessar stóru veitur eiga oft erfitt með að fókusera á hvern og einn markað,“ segir hann í Morgunblaðinu í dag