Ung kona frá Pakistan, sem sótti um hæli hér á landi árið 2018, fær ekki bætur fyrir tanngreiningu sem hún var látin sæta til þess að ákvarða aldur hennar. Tanngreiningin var hluti af líkamsrannsókn sem hún var látin undirgangast og telur konan að um „óþarfa, óáreiðanlega, og vanvirðandi“ rannsókn hafi verið að ræða.
Konunni var vísað frá landi en hún stefndi ríkinu og krafðist ógildingar úrskurðar kærunefndar útlendingamála um að hafna endurupptökukröfu hennar. Á það féllst héraðsdómur Reykjavíkur sem féllst þó ekki á að dæma konunni bætur. Ríkissjóði var gert að greiða konunni 800.000 krónur vegna málskostnaðar.
Konan framvísaði vegabréfi þegar hún kom hingað til lands í september árið 2018 sem sagði til um að hún væri fædd hinn 3. desember árið 2002 og því 16 ára gömul. Vegabréfið var metið ósvikið en grunsemdir um aldur konunnar fóru að láta á sér bera þegar í ljós kom að hún hefði áður sótt um hæli í Svíþjóð árið 2013 og þá sagst vera fædd árið 2000. Henni var synjað um hæli þar í landi.
Konan heldur því fram að hún hafi framvísað fölsuðu vegabréfi í Svíþjóð þar sem hún hafi einungis verið 11 ára gömul þegar hún sótti um hæli þar og því hafi hún talið að sér yrði neitað um hæli þar í landi ef stjórnvöld gerðu sér grein fyrir ungum aldri hennar. Stjórnvöld vildu senda konuna aftur til Svíþjóðar en hún telur næsta víst að henni verði vísað þaðan til Pakistans þar sem hún fékk ekki alþjóðlega vernd í Svíþjóð á sínum tíma.
Hinn 6. ágúst 2019 fór konan fram á endurupptöku á máli sínu. Þá voru liðnir 12 mánuðir frá því að hún sótti um alþjóðlega vernd 6. ágúst 2018. Kærunefnd útlendingamála hafnaði þeirri beiðni með úrskurði hinn 10. október 2019. Byggðist sú niðurstaða á því að konan bæri ábyrgð á tilgreindum töfum sem orðið hefðu þrisvar sinnum á málsmeðferð umsóknar hennar, sem rekja mætti til þess að hún uppfyllti ekki skyldu sína til að greina satt og rétt frá atvikum hjá stjórnvöldum.
Því er konan ósammála og telur að hún sé ekki ábyrg fyrir umræddum töfum. Því er héraðsdómur Reykjavíkur sammála. Tafirnar komu til af nokkrum ástæðum, í fyrsta lagi vegna líkamsrannsóknar, í öðru lagi vegna þess að konan greindi í fyrstu ekki frá því að hún ætti bróður hér á landi og í þriðja lagi vegna þess að konan sótti einnig um vernd með kjörforeldrum sínum.
Konan segir að hún hafi ekki greint frá því að hún ætti bróður hér á landi, sem einnig sótti um alþjóðlega vernd, vegna þess að hann hefði beitt hana líkamlegu ofbeldi þegar þau dvöldu í Svíþjóð og einnig vegna þess að hann væri ekki líffræðilegur bróðir hennar.
Kjörforeldrar konunnar sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi í október 2018 en stjúpfaðir hennar giftist móður konunnar þegar hún var fjögurra ára. Móðirin lést ári seinna. Konan óskaði eftir sameiningu við þau fjórum mánuðum eftir að hún kom sjálf til landsins og segir dómurinn það skiljanlegt. Dómurinn telur ekki réttlætanlegt að hún verði talin hafa tafið málsmeðferðina með því að greina ekki frá því fyrr.
Dómurinn féllst ekki á að konan eigi rétt á miskabótum tanngreiningar sem hún var látin undirgangast til aldursgreiningar. Ekki verði séð að rannsóknin hafi verið framkvæmd á ómannúðlegan eða vanvirðandi hátt.
Tanngreiningar hafa verið framkvæmdar innan veggja Háskóla Íslands og hefur það verið harðlega gagnrýnt af stúdentahreyfingum landsins sem og Evrópusamtökum stúdenta. Háskólinn tók ákvörðun um að hætta tanngreiningum í mars síðastliðnum.