Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, gagnrýnir Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í færslu sem hún setur á Facebook í dag. Tilefnið eru ummæli sem ráðherra lét falla í umræðum um sauðfjárrækt á þingi í gær. Þar sagðist Kristján heyra það á bændum að sauðfjárrækt snerist í raun meira um lífsstíl en afkomuna sem af henni hlýst.
Í færslunni segir Silja það ekki vita á gott fyrir íslenskan landbúnað ef þetta eru viðhorf landbúnaðarráðherra til þeirra sem velja sér að stunda búskap að atvinnu. Spyr hún hvort ráðherra telji það í alvöru „hobbý“ að „framleiða mat fyrir þjóðina og tryggja fæðuöryggi okkar“.
Silja er ekki ein framsóknarmanna um að vera óánægð með Kristján. Um helgina samþykkti Samband ungra framsóknarmanna að lýsa yfir vantrausti á hendur honum en það var áður en hann lét umrædd ummæli falla. Í ályktun frá sambandsþingi SUF segir að störf ráðherra á kjörtímabilinu hafi sýnt að ráðherra mismuni málaflokkum með þeim hætti að málefni landbúnaðar sitji á hakanum.
„Landbúnaður er grundvallarstoð í íslensku samfélagi sem ekki má liggja milli hluta vegna mismununar ráðherra. Ungu framsóknarfólki finnst það óviðunandi að landbúnaðarráðuneytið sé einungis skúffa í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu,“ segir enn fremur.