„Gæti jafnvel orðið einhver aukning“

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við búumst við fjölda daglegra smita núna daglega næstu dagana. Það gæti jafnvel orðið einhver aukning, það er ekki loku fyrir það skotið því þessar aðgerðir fara ekki að bíta fyrr en eftir svona eina til tvær vikur,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir spurður hvort búast hafi mátt við þeim 87 smitum sem greindust innanlands í gær. 

Um 70 þeirra smita sem hafa greinst á síðustu dögum má rekja til hnefaleikastöðvar í Kópavogi. Smitin má annars rekja til ýmissa mannamóta, fjölskylduboða, hittinga vina og hlaupahópa svo fátt eitt sé nefnt. 

Faraldurinn er ekki á uppleið? 

„Við höfum séð þessar sveiflur á milli daga alltaf. Það sem þarf að skoða aðeins betur er þróunin á honum. Hann er alla vega ekki að rjúka upp og það er ánægjulegt,“ segir Þórólfur. Hann telur að búast megi við færri smitum eftir eina til tvær vikur. 

70 smit tengjast hnefaleikastöð

Það á eftir að rekja stóran hluta þeirra smita sem greindust í gær og segir Þórólfur því ekki ljóst hvort einhver þeirra eigi upptök sín í hópsýkingum. Spurður um rakningu smita sem hafa greinst á síðustu dögum segir Þórólfur:

„Um 70 af þessum sýkingum sem hafa verið að greinast undanfarna daga má rekja til þessa hnefaleikafélags eða líkamsræktarstöðvar í Kópavogi. Hvort við séum búin að sjá fyrir endann á því veit ég ekki. Svo er þetta bara það sama – þetta eru fjölskylduhópar og vinahópar, fólk sem er að hittast, jafnvel hlaupahópar og það er á þeim grunni sem við erum að biðla til fólks að fella slíka hópamyndun niður nema kannski fjölskyldur náttúrlega, við getum ekki fellt þær niður.“

Ekki í farvatninu að breyta reglum

Hertar aðgerðir tóku gildi á höfuðborgarsvæðinu í dag og er markmiðið að minnka útbreiðslu smita með þeim.

Þið eruð væntanlega alltaf að endurmeta aðgerðir? 

„Við erum að skoða þetta í ljósi útfærslunnar. Það getur vel verið að það komi eitthvað fram sem þýðir að við þurfum að breyta áherslum en það er ekkert í farvatninu að breyta þessum reglum sem nú eru í gangi,“ segir Þórólfur. 

Spurður hvað þurfi að koma til svo slakað verði á aðgerðum segir hann að margir þættir spili þar inn í. Ekki sé miðað við sérstakan smitstuðul eða nýgengi í þeim efnum. 

„Við búumst ekki við því að sjá árangur af þessu fyrr en eftir 1-2 vikur. Í framhaldi af því þarf að meta þessa hluti sem við höfum alltaf verið að meta: Fjölda nýsmita, fjölda þeirra sem eru í sóttkví, hvernig þessar sýkingar eru, hvort það sé hægt að rekja þær í einhverja ákveðna starfsemi, fjölda innlagna, álagið á heilbrigðiskerfið. Allir þessir þættir spila inn í það mat hvort við viljum fara að aflétta aðgerðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert