Skólasundi verður áfram haldið úti í grunnskólum Reykjavíkurborgar þótt einhverjar truflanir verði á því til að byrja með í Breiðholtslaug vegna smits sem kom upp þar, að sögn Steinþórs Einarssonar, skrifstofustjóra íþrótta- og tómstundaráðs borgarinnar. Grunnskólabörn verða þau einu sem sækja laugarnar heim næstu vikur.
Þær upplýsingar fengust hjá Kópavogsbæ að þar yrði skólasundi haldið áfram þrátt fyrir lokun sundlauga, eins og annars staðar á höfuðborgarsvæðinu.
Öllum sundlaugum höfuðborgarsvæðisins var lokað í dag. Er um að ræða eina af þeim aðgerðum sem ráðist er í á höfuðborgarsvæðinu til að koma í veg fyrir útbreiðslu smits. Samkvæmt reglugerð heilbrigðisráðherra er skólasund grunnskólabarna, barna sem fædd eru 2005 og síðar, leyfilegt. Í gær bárust fréttir þess efnis að skólasundi yrði ekki haldið áfram í Reykjavík en það átti einungis við um gærdaginn.
„Skóla- og frístundasvið tók ákvörðun um að skólasundið væri ekki í boði í gær á meðan enn var opið fyrir almenningi,“ segir Steinþór. Það var vegna þess að margir skólar koma saman í skólasund í ákveðnum laugum og þótti það ekki vænlegt vegna fjölda smita, sérstaklega þegar almenningi var enn hleypt í laugarnar.
„Nú þegar búið er að loka á sundlaugum fyrir almenningi þá munum við setja skólasund aftur af stað,“ segir Steinþór.
„Það verður ekki skólasund alveg til að byrja með í Breiðholtslaug vegna þess að það kom upp smit þar en það er líklega bara fram að helgi sem það verður ekki.“
Mögulega verða einhverjar breytingar á skipulagi skólasunds svo blöndun hópa eigi sér ekki stað. Áfram munu grunnskólabörn njóta íþróttakennslu þrátt fyrir takmarkanir sem settar hafa verið á íþróttaiðkun ungmenna og fullorðinna.