Starfshópur á vegum heilbrigðisráðherra, sem tekur nú sóttvarnarlög til endurskoðunar, hyggst meðal annars tryggja að kveðið verði á um hlutverk sóttvarnarlæknis með nákvæmari hætti í 5. gr. sóttvarnarlaga. Ráðherra ætlar að mæla fyrir frumvarpinu í janúar 2021.
Í skjali um áform lagasetningarinnar, sem heilbrigðisráðherra hefur birt á Samráðsgátt, er talið að nauðsynlegt sé að endurskoða sóttvarnarlögin; önnur úrræði komi ekki til greina þar sem um ræðir stjórnarskrárvarin réttindi fólks og heimildir stjórnvalda þurfi því að koma fram í lögum og vera nægjanlega skýrar til að teljast viðhlítandi réttargrundvöllur réttindaskerðingar. Því sé ekki unnt að nota önnur urræði, s.s. að setja reglugerð.
Lagðar eru til fimm breytingar á sóttvarnarlögum:
1. Taka til endurskoðunar ákvæði IV. kafla laganna sem kveða á um opinberar sóttvarnarráðstafanir.
2. Skoða hvort rétt sé að hafa sérstakt orðskýringarákvæði í lögunum, m.a. í samræmi við hugtakanotkun í alþjóðaheilbrigðisreglugerðinni.
3. Kveða á um hlutverk sóttvarnalæknis með nákvæmari hætti í 5. gr. laganna.
4. Skýra 14. gr. laganna m.a. með þeim hætti að ákvæðið taki til hvort tveggja smitaðra sem og þeirra einstaklinga sem rökstuddur grunur er um að hafi smitast af smitsjúkdómi.
5. Fella sóttkví undir málsmeðferð 15. gr. laganna.
Segir í skjali um áformin að gildandi lög og reglur hafi almennt reynst vel í baráttunni við heimsfaraldurinn en rétt sé að skerpa á og skýra löggjöfina miðað við reynslu síðustu mánaða.
Þannig sé nauðsynlegt að yfirfara og skoða hvort lögin taki nægilegt tillit til þeirrar þróunar sem orðið hefur í beitingu mannréttindaákvæða stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu, og gera tillögur að breytingum.
„Markmið með lagasetningu er að skýra betur heimildir stjórnvalda til opinberra sóttvarnaráðstafana í samræmi við kröfur lögmætisreglunnar og lagaáskilnaðarreglna stjórnarskrárinnar. Þannig geti bæði viðkomandi stjórnvöld og borgararnir gert sér betur grein fyrir þeim heimildum sem stjórnvöld hafa til að bregðast við útbreiðslu farsótta. Enn fremur að kveða á um og skýra betur úrræði borgaranna til að láta reyna á þær ráðstafanir sem fela í sér frelsissviptingu að einhverju leyti,“ segir meðal annars í skjali heilbrigðisráðherra.