Mest smitandi áður en einkennin koma fram

Frá sýnatöku vegna COVID-19.
Frá sýnatöku vegna COVID-19. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Markverður hluti af dreif­ingu COVID-19 á sér stað áður en ein­kenni koma fram en það tek­ur venju­lega 5-6 daga fyr­ir ein­kenni að gera vart við sig eft­ir að ein­stak­ling­ur smit­ast af kór­ónu­veirunni. Lík­lega er fólk mest smit­andi  á fjög­urra daga tíma­bili sem hefst tveim­ur dög­um áður en ein­kenni gera vart við sig og nær til loka ann­ars dags eft­ir upp­haf ein­kenna.

Þetta kem­ur fram í svari Jóns Magnús­ar Jó­hann­es­son­ar, deild­ar­lækn­is á Land­spít­al­an­um, við fyr­ir­spurn á Vís­inda­vefn­um. Fyr­ir­spurn­in er eft­ir­far­andi: 

Hversu fljótt geta þeir sem fá COVID-19 farið að smita aðra og hvenær eru þeir mest smit­andi?

„Sýnt hef­ur verið fram á að smit get­ur átt sér stað áður en ein­kenni koma í ljós; í raun þýðir þetta að veir­an finnst í efri önd­un­ar­fær­um okk­ar áður en við fáum nokk­ur ein­kenni sjúk­dóms­ins. Rann­sókn­ir hingað til sýna að að jafnaði er mögu­leiki á smiti allt að tveim­ur dög­um áður en ein­kenni koma fram. Enn frem­ur virðast ein­stak­ling­ar með COVID-19 vera mest smit­andi degi áður en ein­kenni koma fram. Lík­leg­ast eru ein­stak­ling­ar mest smit­andi af COVID-19 á fjög­urra daga tíma­bili sem hefst tveim­ur dög­um áður en ein­kenni gera vart við sig og nær til loka ann­ars dags eft­ir upp­haf ein­kenna,“ seg­ir í svar­inu.

Tek­ur nokkra daga að verða smit­andi

„Ef við tengj­um þessi gögn sam­an við þekkt­an meðgöngu­tíma sjúk­dóms­ins sjá­um við að það tek­ur nokkra daga að verða smit­andi með COVID-19 eft­ir smit, eða um 3-4 daga að jafnaði. Þetta pass­ar við þá staðreynd að það tek­ur einnig nokkra daga fyr­ir sýni að verða já­kvætt fyr­ir SARS-CoV-2 úr stroki frá upp­hafi smits.“

Þetta þýðir því að ein­stak­ling­ar með COVID-19 geta smitað aðra áður en þeir fá ein­kenni sjálf­ir.

„Þetta und­ir­strik­ar mik­il­vægi bæði sótt­kví­ar, þar sem tryggt er að hætta á smiti sé í lág­marki þrátt fyr­ir að ein­kenni séu ekki til staðar og ekki síður al­mennr­ar aðgát­ar í hegðun og öll­um sótt­vörn­um. Enn frem­ur er þetta for­senda þess að nota grím­ur víðar en van­inn er með aðrar önd­un­ar­færa­sýk­ing­ar. Notk­un gríma get­ur minnkað hættu á að dreifa COVID-19 áfram til annarra óháð ein­kenn­um auk þess að vernda mann sjálf­an,“ seg­ir í svar­inu. 

Breyti­legt á milli fólks

„Ef smit verður frá ein­stak­lingi sem er ein­kenna­laus er talað um dreif­ingu án ein­kenna - hins veg­ar má skipta þess­ari dreif­ingu í tvennt. Ef ein­stak­ling­ur er í fyrstu ein­kenna­laus en fær síðan ein­kenni er það nefnt á ensku presymptom­atic transmissi­on. Þetta er talið vera ráðandi dreif­ing­ar­máti COVID-19. Ef ein­stak­ling­ur fær hins veg­ar aldrei ein­kenni er talað um asymptom­atic transmissi­on. Þessi skipt­ing hef­ur veru­lega þýðingu - ef flest smit eiga sér stað frá ein­stak­ling­um sem eru annaðhvort með ein­kenni eða fá ein­kenni síðar meir má beita smitrakn­ingu til að meta hættu á út­setn­ingu annarra. Ef ein­stak­ling­ur dreif­ir ómeðvitað COVID-19 áfram en fær aldrei ein­kenni verður þessi smitrakn­ing hins veg­ar næst­um ómögu­leg nema ít­ar­leg skimun sé í sam­fé­lag­inu.“

Að lok­um nefn­ir Jón að tölu­verður breyti­leiki sé á milli ein­stak­linga í fram­gangi sýk­ing­ar og smits.

„Þær töl­ur og stærðir sem hér hef­ur verið fjallað um eru meðal­töl fyr­ir stóra hópa. Sum­ir ein­stak­ling­ar smita leng­ur en aðrir skem­ur. Því er að sjálf­sögðu afar mik­il­vægt að ein­stak­ling­ar með COVID-19 fari var­lega og fylgi öll­um til­mæl­um, þó svo að tveir dag­ar eða lengri tími hafi liðið frá upp­hafi ein­kenna.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert