Héraðsdómur Vestfjarða dæmdi í dag einstakling til greiðslu miskabóta fyrir að hafa tvisvar sinnum gripið utanklæða um vinstra brjóst brotaþola inni á skemmtistað í mars síðastliðnum, en með brotinu rauf hann tveggja ára skilorð fyrir blygðunarsemisbrot sem hann framdi fyrir ári.
Leit dómurinn til skýlausrar játningar ákærða og ákvað að hann skyldi sæta þriggja mánaða fangelsisvist en fullnustu refsingarinnar frestað. Verður því refsingin látin niður falla að liðnum tveimur árum frá dómsbirtingu, haldi ákærði almennt skilorð 57.gr. almennra hegningarlaga.
Krafðist brotaþoli 1.500.000 króna miskabóta en ákærða var gert að greiða 200 þúsund krónur í miskabætur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá því brotið var framið til 12. september en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Var ákærða einnig gert að greiða allan sakarkostnað, þóknun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola.