Sauðfjárrækt snúist um lífsstíl frekar en afkomu

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. mbl.is/Eggert

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segist heyra það á sauðfjárbændum að sauðfjárrækt snúist í raun meira um lífsstílinn en afkomuna sem af henni hlýst.

Þetta kom fram í máli ráðherrans á Alþingi í gærkvöldi, við umræður um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir næstu fjögur ár.

Engin goðgá

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sem áður gegndi því embætti sem Kristján gegnir nú, hafði spurt ráðherrann út í tækifæri og frelsi fyrir bændur til að haga sinni ræktun.

„Talandi um frelsið,“ svaraði Kristján, „sem bændur þrá og hafa að mörgu leyti, vegna þess einfaldlega að fólk kýs sér atvinnu, kýs sér búsetu, og það er svona fyrsti kosturinn sem við getum sagt að fólk hafi frelsi um að velja, ég held að það sé engin goðgá að ætla það að menn kjósi af mörgum ástæðum til dæmis að stunda sauðfjárbúskap,“ bætti hann við.

„Maður heyrir viðtöl við sauðfjárbændur og á samtal við þá þar sem þeir segja að þetta sé meiri lífsstíll en spurning um afkomu.“

Kristján Þór benti svo meðal annars á verkefni um heimaslátrun, „að gera sauðfjárbændum kleift að slátra og vinna kjöt á sínum eigin forsendum“.

Brýnt að stækka markaðinn

Einnig nefndi hann garðyrkju sem búið væri að „ýta undir“ nýverið við endurskoðun samnings við garðyrkjubændur.

„Þannig að það er ýmislegt sem gert hefur verið sem ýtir undir það sem háttvirtur þingmaður gerir hér að umtalsefni og er mjög mikilvægt; að gefa fólki færi á að ráða meiru um sín mál sjálft frekar en að vera bundið á einhvern opinberan klafa.“

Hann sagðist geta tekið undir það að mörgu leyti að brýnt væri að stækka markaðinn.

„En ég segi samt sem áður: það hlýtur að vera það sem næst manni er að stækka hlutdeild íslenskrar framleiðslu á innlendum markaði. Og ef við horfum til dæmis bara á grænmetisframleiðsluna, sem hefur dregist saman í markaðshlutdeild í síðustu árum. Fullt af tækifærum þar vegna þess að tryggð neytenda við íslenska framleiðslu er gríðarlega mikil. Ég hefði álitið að það væri betra, það væri einfaldara, fyrir íslenskan framleiðanda að vinna markaðinn hér en að ráðast í útrás á stærri mörkuðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert