Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur fengið aðstöðu í hluta húsnæðis sem ÍSOR leigir af Ríkiseignum á Grensásvegi 9, en þar verða tveir sjúkrabílar staðsettir ásamt sjúkraflutningamönnum.
Kemur þessi ráðstöfun í kjölfar mikils álags sem hefur verið í sjúkraflutningum frá upphafi Covid-19 faraldursins, en slökkviliðið metur að líklega verði slíkt álag áfram á næstunni.
Kallar sú staða á að skipta mannskap upp á mismunandi staði. „Álagssveiflur vegna COVID kalla á aukinn mannafla á vakt, á sama tíma og mikilvægt er að skipta starfsfólki á vakt upp í smærri hópa til að koma í veg fyrir að missa marga í sóttkví eða einangrun,“ segir í tilkynningu frá slökkviliðinu.
Þegar hefur verið hafist handa við að tæma húsnæðið og gert ráð fyrir að það verði afhent á næstunni.
Áður þegar faraldurinn hefur blossað upp hefur slökkviliðið fengið inni á fleiri stöðum en í eigin húsnæði einmitt til að tryggja smitvarnir og hafa mannskapinn í fleiri en minni hópum. Hefur slökkviliðið meðal annars fengið inni hjá björgunarsveitum á nokkrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu í fyrri bylgjum.