Skoða útfærslur skimana á landamærum

Komufarþegar í Leifsstöð. Þeir geta búist við tvöfaldri skimun áfram …
Komufarþegar í Leifsstöð. Þeir geta búist við tvöfaldri skimun áfram næstu mánuði. mbl.is/Árni Sæberg

Útfærslur skimana á landamærum eru til skoðunar en sóttvarnalæknir segist ekki búast við því að breytingar á því fyrirkomulagi sem nú er í gildi verði gerðar áður en ákvörðun ríkisstjórnarinnar um skimanir rennur út fyrsta desember. 

Eins og staðan er nú þurfa allir sem til landsins koma að fara í tvöfalda sýnatöku með fimm daga sóttkví þar á milli. „Ríkisstjórnin er búin að ákveða að þetta gildi til fyrsta desember svo það er ekkert endurmat þar í gangi,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. 

Er þá ekki verið að skoða breytingar á núverandi fyrirkomulagi? 

„Það eru hópar að skoða útfærslur skimana á landamærunum, vottorð og annað slíkt. Ríkisstjórnin er bara búin að ákveða núna að þetta muni gilda til fyrsta desember. Ég geri ekki ráð fyrir því að það komi eitthvað nýtt á þeim tíma en menn eru náttúrlega að skoða í millitíðinni ýmsar útfærslur sem gætu þá verið til frambúðar. Það á þá bara eftir að koma í ljós hvað verður lagt til þar.“

Hvernig sérð þú stöðuna, myndirðu leggja til áframhaldandi tvöfalda skimun þar til bóluefni kemur til sögunnar? 

„Ég ætla ekki að fara svo langt fram í tímann. Við erum að horfa á þetta nánast frá degi til dags, hver þróunin er o.s.frv. Ef maður fer að horfa á þetta til lengri tíma er það fljótt að falla um sjálft sig vegna þess að hlutirnir breytast nánast frá degi til dags,“ segir Þórólfur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert