Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra birti á Facebook færslu þar sem hún hvetur fólk til samstöðu í baráttunni við kórónaveirufaraldurinn. Segist hún hafa orðið þess áskynja að fólk sýni aðgerðunum skilning og æðruleysi.
„Kæru vinir. Núna greinist metfjöldi fólks með smit á hverjum degi og einsýnt að veiran hefur dreift sér víða um samfélagið. Hátt í 800 manns eru í einangrun og í dag eru 18 á sjúkrahúsi. Aldrei hefur verið mikilvægara að við stöndum vörð um heilsu og líf fólks og að við gætum öll að okkur – ekki sjálfra okkar vegna heldur fyrir okkur öll,“ segir Katrín meðal annars í færslu sinni.
Hún segist hafa heyrt í mörgum í gær og í dag, í gegnum símtöl og á fjarfundum og að allir hafi sýnt aðgerðunum skilning og æðruleysi, enda séu allir meðvitaðir um alvöru málsins.
„En fólk er líka bjartsýnt á að aðgerðirnar skili árangri enda höfum við sýnt það í fyrri bylgjum að við getum með samstilltu átaki náð faraldrinum niður og það munum við líka gera núna. Gætum fjarlægðar, virðum fjöldatakmarkanir, notum grímu þar sem það á við, virðum fólkið í kringum okkur og gætum ýtrasta hreinlætis. Við getum þetta – og gerum það saman!“ skrifar Katrín á facebooksíðu sinni.
Kæru vinir. Núna greinist metfjöldi fólks með smit á hverjum degi og einsýnt að veiran hefur dreift sér víða um...
Posted by Katrín Jakobsdóttir on Wednesday, October 7, 2020