Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í sumar íslenska ríkið til að greiða Guðmundi R. Guðlaugssyni 5,6 milljónir króna í skaðabætur fyrir tekjutap sem hann varð fyrir eftir að hafa verið í gæsluvarðhaldi vorið 2010.
Áður hafði hann fengið greiddar tvær milljónir í bætur og gæti upphæðin hækkað enn meira, að því er RÚV greinir frá.
Guðmundur hefur í viðtölum greint frá því hve málið hefur verið honum þungbært og hefur hann lengi reynt að rétta hlut sinn.
Guðmundur var handtekinn á heimili sínu árið 2010 vegna rannsóknar á innflutningi á þremur kílóum af kókaíni frá Suður-Ameríku, sem sonur hans var viðriðinn. Sonurinn var dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir peningaþvætti og fjórir aðrir fengu þunga dóma.
Guðmundur sat í gæsluvarðhaldi í tíu daga en rannsóknin á hendur honum var látin niður falla. Hæstiréttur dæmdi honum tvær milljónir króna í miskabætur árið 2017 fyrir gæsluvarðhaldið.
Guðmundur höfðaði fyrir tveimur árum annað bótamál á hendur ríkinu þar sem hann krafðist skaðabóta fyrir vinnutap í tvö ár. Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á þetta í dómnum sem var kveðinn upp í sumar og dæmdi honum bætur. Ríkið áfrýjaði dómnum til Landsréttar, sem hefur ekki tekið málið fyrir.
Guðmundur krafðist einnig þjáningarbóta upp á rúma milljón króna. Slíkum bótum á óvinnufært fólk rétt á ofan á skaðabætur fyrir tekjutap. Þar að auki krafðist hann bóta upp á um átta milljónir fyrir varanlegan miska, en þessum kröfum vísaði héraðsdómur frá.