Samfylkingin vill ráðast í stórtækar aðgerðir til að fjölga störfum bæði hjá hinu opinbera og í einkageiranum. Flokkurinn kynnti í dag áætlun efnahagsstefnu sína fyrir næsta ár, sem ber nafnið Ábyrga leiðin.
Með henni er stefnt að því að skapa um 5-7.000 ný störf og minnka þannig atvinnuleysi um allt að þriðjung. Verðmiðinn er sagður 80 milljarðar króna, en að teknu tilliti til aukinna skatttekna og lægri útgjalda til atvinnuleysistrygginga yrði nettókostnaður ríkissjóðs um 50 milljarðar króna.
Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem kynnt var í síðustu viku, væru engar aðgerðir til að draga úr atvinnuleysi og fyrirséð værri að um 30 þúsund manns yrðu atvinnulaus um áramót.
Flokkurinn vill ráðast í atvinnuskapandi skattalækkanir fyrir einstaklinga og smærri fyrirtæki, samhliða því að hækka bætur atvinnuleysis- og almannatrygginga og létta undir með sveitarfélögum.
Í áætluninni er einnig lagt til að starfsmönnum í almannaþjónustu verði fjölgað. Fram kom í máli Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, að stöðugildum hjá ríkinu hefði fækkað um 1.000 á síðustu tíu árum, á sama tíma og landsmönnum hefur fjölgað um 50.000.
Á sama tíma og um 1.000 menntaðir hjúkrunarfræðingar starfi við annað en hjúkrun vanti um 200 sjúkraliða og 400 hjúkrunarfræðinga á heilbrigðisstofnanir um allt land. Ráðast þurfi í markvissar aðgerðir til að kraftar þeirra nýtist í íslenska heilbrigðiskerfinu. Þá þurfi að fjölga lögregluþjónum um 200 og starfsfólki í menntakerfinu um að minnsta kosti 300, auk þess að fjölga sálfræðingum og félagsráðgjöfum.
Enn fremur er lagt til að grunnatvinnuleysisbætur verði hækkaðar úr 289 þúsund krónum á mánuði upp í 318 þúsund krónur en við það yrðu bæturnar um 95% af lágmarkslaunum. Þá þurfi að tryggja stúdentum rétt til atvinnuleysisbóta í námshléum á sumrin.