Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að ef aðstæður leyfa sé heppilegra að börn dvelji annars staðar en á heimilinu ef aðrir heimilismeðlimir eru í sóttkví. Hins vegar séu aðstæður fólks misjafnar og í sumum tilvikum sé það einfaldlega ekki hægt.
Eins og gefur að skilja eiga ung börn erfiðara með að virða fjarlægðarmörk en þeir sem eru fullorðnir. „Best er að einstaklingar, hvort sem þeir eru börn eða aðrir séu í sóttkví einir og sér. En stundum er það ekki hægt og þá þurfa menn að grípa næstbesta kostinn sem er að reyna að halda fjarlægð eftir bestu getu,“ segir Þórólfur.
Börn verða ekki eins alvarlega veik og fullorðnir auk þess sem minni smithætta er af börnum. Að sögn Þórólfs hafa börn undir 12 ára aldri sýnt einkenni en enn sem komið er hafa þau ekki þurft á innlögn að halda.
Mælist þið til þess að börn, önnur en þau sem eru í sóttkví, verði send af heimilinu?
„Það er óhætt að segja að það sé besti kosturinn,“ segir Þórólfur.
Hann áréttar þó að ekki séu aðrir heimilismeðlimir í sóttkví en sá einstaklingur sem hafi fengið tilkynningu þess efnis. Þeir sem ekki eru í aðstöðu til þess að senda börn af heimilinu verði að spila aðstæður eftir eyranu og reyna sitt besta að halda fjarlægð á milli heimilismeðlima.
Eins og fram hefur komið er fjöldi barna í sóttkví eftir að smit hefur komið upp í skólum landsins.
Í veirubylgjunni sem herjaði á Ísland í vor kom í ljós að í sumum tilfellum hafi fólk verið einkennalaust. Að sögn Þórólfs sýndi mótefnamæling sem framkvæmd var eftir fyrstu bylgjuna að auk þeirra sem voru greindir voru um 40% sem fengu veiruna en sýndu engin einkenni. „Það gæti verið allt að 40% fleiri en þeir sem eru að greinast fái veiruna. En í þessari bylgju erum við að taka miklu fleiri sýni og fólk með mun vægari einkenni er að koma fram. Því gæti farið svo að útkoman verði einhver önnur núna,“ segir Þórólfur.
Ísland er í samfloti með Evrópusambandinu þegar kemur að þróun bóluefnis. Þórólfur segir að níu til tíu bóluefni séu í sigtinu. „Við getum ekki notað önnur bóluefni en þau sem samþykkt eru af evrópsku lyfjastofnunni. Við þurfum því bara að bíða og sjá hvaða bóluefni komast í gegnum síuna hjá þeim,“ segir Þórólfur.
Hann segir að ekki sé fylgst sérstaklega með bóluefnaþróuninni. Slíkt verði ekki gert fyrr en niðurstöður rannsókna liggja fyrir. „Það eru ábyrgir aðilar sem munu koma til með að fara yfir það hvaða bóluefni fái leyfi,“ segir Þórólfur. „Það er engin tímalína í því hvenær þetta verður tilbúið,“ segir Þórólfur.
Eins og fram hefur komið fékk Donald Trump kórónaveiruna. Fram komi í fréttum að hann hefði fengið meðferð blandaðra tilraunalyfja. Spurður segist Þórólfur ekkert vita um þessi mál. „Það er ekkert um mörg lyf að ræða. Menn fá steralyf auk þess að nota tvö veirulyf. Ég veit ekki meira um þessi lyf,“ segir Þórólfur.
Að sögn Þórólfs er nær öruggt að fleiri bylgjur muni koma áður en yfir lýkur. „Hún kemur alltaf (veiran). Jafnvel þó að menn hafi beitt mjög hörðum aðgerðum eins og í Nýja-Sjálandi. Þar var mjög hörðum aðgerðum beitt, en hún kemur alltaf upp aftur. Á meðan hún er í dreifingu og í gangi erlendis, þá mun hún komast aftur inn. Það er bara þannig,“ segir Þórólfur.
Spurður hvort að miðað við reynsluna nú, þá komi hann til með að leggja til harðari aðgerðir fyrr þegar upp kemur smitbylgja í framtíðinni þá segir hann ekki hægt að svara slíku. „Hreinskilnasta svarið er það að það er ekki hægt að svara því heldur verður að taka mið af aðstæðum þegar þar að kemur,“ segir Þórólfur.
Fram kom í Fréttablaðinu í dag að ekki hafi verið einhugur meðal ráðamanna um þær samfélagslegu aðgerðir sem gripið hafi verið til. Að sögn Þórólfs hefur hann ekki orðið var við það. „Mér finnst stjórnvöld hafa verið hreinskilin og tekið á þeim tillögum sem ég hef lagt til. Við höfum rætt við ríkisstjórnina og ég hef ekki orðið var við neina óeiningu. Hins vegar er mjög eðlilegt að fólk hafi mismunandi skoðanir og ég geri engar athugasemdir við það,“ segir Þórólfur.
Tekur þú mið af samfélagslegum aðstæðum eða hugsar þú eingöngu um sóttvarnaraðgerðir þegar þú leggur fram tillögur?
„Allar sóttvarnir, sýkingarvarnir, læknisfræðilegar aðgerðir hafa það markmið að reyna að lækna eða að koma í veg fyrir sjúkdóma með sem minnstum afleiðingum fyrir sjúklinginn eða þjóðfélagið. Hins vegar er það þannig að ef að ég væri bara að hugsa um sóttvarnir þá myndi ég segja: lokum bara öllu. Engin fær að fara út o.frv. Ég hef ekki lagt það til og ég hef reynt að taka mið af þeirri reynslu sem við höfum fengið og svo taka mið af ýmsum samfélagslegum afleiðingum. Á endanum verða samt ráðamenn að taka tillit til annarra hagsmuna og þeir bera ábyrgðina auk þess að hafa endanlegt ákvörðunarvald. En ég tek vissulega tillit til ýmissa þátta í mínum tillögum,“ segir Þórólfur.