Davíð O. Arnar, yfirlæknir hjartalækninga, er heiðursvísindamaður Landspítala 2020. Davíð er yfirlæknir hjartalækninga á Landspítala, gestaprófessor við læknadeild Háskóla Íslands og formaður Félags íslenskra lyflækna.
Fram kemur í tilkynningu að verðlaunin eru veitt árlega einstaklingi sem þykir hafa náð framúrskarandi árangri í vísindarannsóknum á sínum starfsferli.
„Hans megin áhugasvið í vísindarannsóknum snýr að erfðafræði hjartsláttartruflana, sér í lagi gáttatifs, og nýtingu erfðaupplýsinga í heilbrigðisþjónustu. Davíð hefur unnið mjög náið með Íslenskri erfðagreiningu og hafa niðurstöður rannsókna þeirra vakið verulega athygli, birst í mjög virtum tímaritum og aukið skilning okkar á grunnorsökum hjartsláttartruflana. Hafa rannsóknirnar meðal annars sýnt fram á mikilvægi stökkbreytinga í genum sem tjá samdráttarprótín hjartavöðvafruma í tilkomu gáttatifs. Hafa þessar uppgötvanir leitt til grundvallarbreytinga á hugmyndun um meingerð þessarar algengu hjartsláttatruflunar og gætu leitt af sér nýja nálgun í áhættumati og meðferð sjúkdómsins.
Einnig hefur Davíð unnið heilmikið að klínískum rannsóknum. Þar má nefna samstarfsverkefni með Hjartavernd á afleiðingum gáttatifs á heila, sér í lagi áhrif til skerðingar á vitrænni getu, minnkunar á heilablóðflæði og heilarúmmálsrýrnun. Davíð hefur mikinn áhuga á nýtingu snjalltækni til fjarvöktunar á einkennum og líðan hjartasjúklinga sem og til að efla fræðslu um mikilvægi lífstílsbreytinga. Davíð undirbýr nú rannsóknir á fýsileika þess að bæta við fjareftirliti og fræðslu með snjalltækni til viðbótar hefðbundinni meðferð við kransæðasjúkdómi, hjartabilun og gáttatifi í samstarfi við fyrirtækið Sidekick Health,“ segir í tilkynningunni.
Þá kemur fram að Davíð hefur yfirgripsmikla stjórnunarreynslu innan heilbrigðiskerfisins og er yfirlæknir hjartalækninga á Landspítala, gestaprófessor við læknadeild Háskóla Íslands og formaður Félags íslenskra lyflækna. Hann hefur komið talsvert að félags og nefndarstörfum hjá Evrópusamtökum hjartalækna.
Heiðursvísindamaður Landspítala er útnefndur ár hvert og hefur vísindaráð Landspítala veg og vanda af útnefningunni. Eins og hefð er fyrir hélt heiðursvísindamaðurinn fyrirlestur um rannsóknir sínar að lokinni útnefningu, afhendingu heiðursskjals og heiðursverðlauna að upphæð 300 þúsund króna.