Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir að þríeykið telji ekki að ósætti ríki innan ríkisstjórnarinnar vegna þeirra aðgerða sem hefur verið gripið til vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.
„Það er full samstaða í ríkisstjórninni á bak við okkur,“ sagði Víðir á upplýsingafundi almannavarna í dag.
Fréttablaðið sagði frá því í dag að samkvæmt heimildum þess sé óeining innan þingmeirihlutans um sóttvarnaaðgerðir heilbrigðisráðherra, ekki síst í kjölfar síðustu auglýsinga ráðherrans um og eftir helgina. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hafa þrír ráðherrar Sjálfstæðisflokksins verið í hópi efasemdamanna, þau Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamálaráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Víðir sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að samstaða ríkti um tilmælin. Ríkisstjórnin standi á bak við teymi almannavarna og embættis landlæknis, sömuleiðis sveitarstjórarnir á höfuðborgarsvæðinu og almannavarnir á höfuðborgarsvæðinu. Hörðustu aðgerðunum hefur verið komið á á höfuðborgarsvæðinu.
„Almenningur vill vera með okkur og er að taka þátt í þessu,“ sagði Víðir sem sagði einnig að teymið væri í góðu sambandi við stjórnvöld. „Við upplifum ekki gagnvart ríkisstjórninni að það sé einhvert ósætti um [aðgerðirnar].“
Víðir og Þórólfur sögðu þó að umræða um málið væri af hinu góða en þegar búið væri að taka ákvarðanir um aðgerðir væri mikilvægt að samstaða væri sýnd. Þorólfur líkti þessu við fótboltaleik landsliðsins. Gagnrýna mætti liðið fram að leik en það hefði ekkert upp úr sér að gagnrýna liðið þegar það væri að spila landsleik. Þá væri mikilvægt að sýna samstöðu.
„Hinn eini sanni sannleikur um það hvernig á að gera þetta er ekki til,“ sagði Þórólfur.