Íslendingar á umdeildum undirskriftalista

Fólk á leið í sýnatöku við Suðurlandsbraut.
Fólk á leið í sýnatöku við Suðurlandsbraut. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjöldi Íslendinga hefur skráð sig á umdeildan alþjóðlegan undirskriftalista þar sem lýst er yfir „alvarlegum áhyggjum“ vegna harðra aðgerða stjórnvalda til að stöðva útbreiðslu kórónuveirunnar.

Næstum sex þúsund sérfræðingar höfðu í gær skrifað undir listann, að því er kemur fram í umfjöllun BBC, ásamt um fimmtíu þúsund manns til viðbótar.

Yfir fimmtíu Íslendingar eru á listanum, þar á meðal lýtalæknir, augnlæknir og fólk úr viðskiptalífinu.

Fram kemur að þær aðgerðir sem núna eru í gangi hafi afar slæm áhrif á andlega og líkamlega heilsu fólks, sem og samfélög í heild sinni.

Farið er fram á að stjórnvöld einbeiti sér að því að vernda þá sem eru viðkvæmastir fyrir svo að heilbrigt fólk geti haldið áfram að lifa eðlilegu lífi. Ekki dugi til að bíða eftir því að bóluefni verði tilbúið.

Með auknu hjarðónæmi dragi úr líkunum á því að allir smitist, þar á meðal þeir sem eru viðkvæmir fyrir. „Okkar markmið er að fækka dauðsföllum og samfélagslegum skaða þangað til við náum hjarðónæmi,“ segir í yfirlýsingu.

Vísindamenn hafa varað við því sem kemur fram í yfirlýsingunni. Meðal annars hafa þeir bent á að umfangsminni aðgerðir gætu gert það að verkum að erfiðara verður að vernda alla áhættuhópa og að hættan sem stafar af langtímaáhrifum af völdum kórónuveirunnar gæti orðið til þess að mun fleira fólk verður í áhættuhópi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert