Krýsuvíkurkirkju lyft á vörubílspall

Tilfæringar með kirkjuna við Tækniskólann í Hafnarfirði
Tilfæringar með kirkjuna við Tækniskólann í Hafnarfirði Ljósmynd/Sigurjón Pétursson

Ný Krýsuvíkurkirkja, sem verið hefur í smíðum undanfarin ár hjá nemendum trésmíðadeildar Tækniskólans í Hafnarfirði, var í vikunni hífð af jörðu og sett á dráttarvagn.

Stefnt er að flutningi kirkjunnar á sinn varanlega stað í næstu viku, en margvíslegan undirbúning þarf áður. Nú þarf meðal annars að útbúa burðarþolið malarplan fyrir kranann sem notaður verður til að færa guðshúsið, sem er 6,8 tonn að þynd, af palli dráttarbíls yfir á kirkjuhólinn.

Fyrri kirkja í Krýsuvík var byggð árið 1857 en brann til kaldra kola í eldsvoða af völdum íkveikju 2. janúar 2010. Strax í kjölfarið kom fram áhugi meðal stjórnenda Iðnskólans í Hafnarfirði, sem þá var, á að smíði nýrrar kirkju yrði verkefni trésmíðanema skólans. Hljómgrunnur var fyrir slíku og þar með komst málið á hreyfingu milli stjórnenda skólans og kirkjunnar fólks.

Nákvæmum fyrirmyndum hefur verið fylgt við smíði kirkjunnar, en starfsmenn Þjóðminjasafnsins tóku þá gömlu út mjög nákvæmlega árið 2003; mældu, mynduðu og skráðu. Hafa þær upplýsingar í raun gert þessa vandasömu smíði gerlega, en hún hefur tekið rúman áratug.

Vígsluathöfn innan tíðar

„Kirkjan er tilbúin, predikunarstóll, altari, bekkir og annað hefur verið fest niður. Því er ekkert að vanbúnaði að vígsluathöfnin verði innan tíðar, nema samkomutakmarkanir stöðvi okkur. Verkefnið er nánast komið í höfn,“ segir Sigurjón Pétursson, sem er í forystu vinafélags Krýsuvíkurkirkju.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert