Viðbragðsstjórn og farsóttanefnd Landspítala (LSH) afturkölluðu í dag ákvörðun um að starfsfólk Landspítala takmarki störf sín við einn vinnustað. Í ákvörðuninni, sem tilkynnt var í gær, kom fram að starfsfólk Landspítala gæti ekki sinnt störfum á Landspítala og á öðrum stofnunum, s.s. hjúkrunarheimili, heimahjúkrun, sambýli eða öðrum sambærilegum stofnunum.
Hið sama átti að gilda um nema í klínísku námi á Landspítala er starfa á öðrum stofnunum.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Landspítala.
Þar segir sömuleiðis að gert sé ráð fyrir að næstkomandi mánudag verði fimmtu skurðstofunni í Fossvogi lokað og dragi þar með enn úr valkvæðum aðgerðum. „Verða þá átta af 19 skurðstofum opnar. Áfram verður sinnt bráðatilvikum og lífsbjargandi aðgerðir framkvæmdar.“
Á Landspítala eru nú 23 sjúklingar inniliggjandi vegna Covid-19, þar af þrír á gjörgæslu og allir í öndunarvél. 858 sjúklingar eru í eftirliti Covid-19-göngudeildar. 72 starfsmenn eru í sóttkví A og 37 starfsmenn í einangrun.