Mikill meirihluti ánægður með göngugötur

Meirihluti borgarbúa er jákvæður í garð göngugatna í borginni.
Meirihluti borgarbúa er jákvæður í garð göngugatna í borginni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríflega 67% Reykvíkinga eru jákvæðir í garð göngugatna í miðborginni. Þetta eru niðurstöður könnunar sem Maskína vann fyrir Reykjavíkurborg og birt var í gær. 16,1% aðspurðra segjast neikvæðir í garð göngugatna en álíka stór hluti segist í meðallagi jákvæður.

Hlutfall þeirra sem segjast jákvæðir eykst lítillega frá síðasta ári þegar 64,5% sögðust jákvæð.

Mestur er stuðningurinn meðal íbúa í póstnúmeri 107 (89%) og 101 (83%) en minnstur meðal íbúa í Árbæ (47%) og Grafarholti (54%). Þá eykst jákvæðni í garð göngugatna eftir því sem fólk heimsækir miðborgina oftar.

82% þeirra sem heimsækja göngugötusvæðið í hverri viku segjast þannig jákvæð í garð göngugatna, 76% þeirra sem heimsækja svæðið einu sinni eða ofar í mánuði en 42% þeirra sem gera það sjaldnar en mánaðarlega.

Telja svæðið hæfilega stórt

Meirihluti aðspurðra, eða 52,1%, er á því að göngugötusvæðið sé hæfilega stórt. Hins vegar telja 23,6% að það mætti vera stærra en 24,3% að það mætti vera minna.

Þáttakendur voru einnig spurðir út í áhrif göngugatna á mannlíf, verslun og veitinga- og matsölustaði í borginni. 67,7% telja göngugötur hafa jákvæð áhrif á mannlíf, samanborið við 14,7% sem telja áhrifin neikvæð. Þá telja 63,9% þær hafa jákvæð áhrif á veitinga- og matsölustaði en 15,4% að áhrifin séu neikvæð. Loks teja 47,6% að áhrifin á verslun séu jákvæð en 29,9% að þau séu neikvæð.

Könnunin var framkvæmd á netinu dagan 8.-17. september og voru svarendur 884. Voru svörin vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og póstnúmers.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert