Framlög til menningar-, íþrótta- og æskulýðsmála aukast um 7% milli áranna 2020-2021 samkvæmt nýkynntu fjárlagafrumvarpi ársins 2021. Þau eru áætluð alls 17,6 milljarðar kr. og aukast um 1,1 milljarð kr. milli ára, sé miðað við fast verðlagi.
Þetta kemur fram á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins.
„Menningarlíf auðgar tilveru okkar allra og við erum stolt af þeirri fjölbreyttu og blómlegu menningu sem landsmenn á öllum aldri geta notið. Menningarstarf skilar líka miklum efnahagslegum gæðum til samfélagsins í formi atvinnu og framleiðslu á vöru og þjónustu. Skapandi greinar vaxa hraðar en aðrar atvinnugreinar og skapa virði fyrir aðra geira; efling þeirra samræmist því vel áherslum okkar á atvinnusköpun til framtíðar,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, í tilkynningu.
Þar segir ennfremur, að sem lið í fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar til að sporna gegn niðursveiflu í efnahagslífinu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveirunnar sé 500 milljónum kr. veitt til uppbyggingar safna, annars vegar 300 milljónum kr. vegna uppbyggingar Náttúruminjasafns Íslands og 200 milljónum kr. til undirbúnings vísinda- og upplifunarsýningar fyrir börn og ungmenni. Heildarframlag þess átaks til menningar, lista og skapandi greina nemur einum milljarði kr. Alls 75 milljónir kr. renna aukalega til að efla starfsemi höfuðsafna; Listasafns Íslands, Þjóðminjasafns Íslands og Náttúruminjasafns Íslands.
Framlag vegna framkvæmda við menningarsal á Selfossi nemur 140,5 milljónum kr. samkvæmt frumvarpinu en ráðgert er að heildarframlag ríkisins til þess verkefnis nemi alls 281 milljónum kr. sem skiptist niður á tvö ár.