Stjórnendur í Fjallabyggð eru ekki ánægðir með efni bréfs Vegagerðarinnar þar sem kröfum slökkviliðsstjórans um úrbætur í brunavörnum og öryggismálum í jarðgöngum í sveitarfélaginu er svarað.
Elías Pétursson bæjarstjóri saknar þess að í bréfi Vegagerðarinnar komi ekki fram tímasett áætlun um úrbætur. Ármann Gunnarsson slökkviliðsstjóri lítur á svar Vegagerðarinnar sem tilraun til að draga málið á langinn, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þessi í Morgunblaðinu í dag.
Í svarbréfi Vegagerðarinnar kemur fram að öll göng á Tröllaskaga séu gerð með hliðsjón af gildandi norskum staðli á þeim tíma sem göngin voru hönnuð en ekki sé miðað við að staðlarnir gildi afturvirkt. Eigi að síður kemur fram að þörf er á ýmsum úrbótum og er talið æskilegt að aðilar komi sér saman um forgangsröð þeirra.
Fram kemur að Vegagerðin telur mesta þörf á endurbótum á Múlagöngum sem eru 30 ára gömul. Elías bæjarstjóri telur að skynsamlegast sé að uppfæra Múlagöng til nútímans og gera vegskála Eyjafjarðarmegin til að draga úr hættu vegna snjóflóða. Þetta sé kostnaðarsöm framkvæmd og á meðan beðið sé eftir henni þurfi öryggi í göngunum að vera í lagi.
Ármann slökkviliðsstjóri vonast til að kröfur um úrbætur á jarðgöngum í sveitarfélaginu styrkist eftir úttektir sem Samgöngustofa og Mannvirkjastofnun gerðu á göngunum fyrir skömmu. Vonast hann til að skýrslur um niðurstöðu úttektarinnar berist fljótlega og það leiði til úrbóta.