„Þetta er vissulega mjög krefjandi og mikið stökk af því að við fengum að koma í skólann í smá stund en þurfum svo að vera heima. Maður er óagaðri þegar kemur að því að vera heima og sitja fyrir framan tölvuna. Fólk veit alveg af hverju verið er að þessu og fyrir vikið eru nemendur alveg jákvæðir en þetta hefur áhrif,“ segir Eiríkur Kúld Viktorsson, formaður nemendafélags Verslunarskóla Íslands.
Verslingar sem og aðrir framhaldsskólanemendur þurfa um þessar mundir að sinna námi sínu heima vegna fjöldatakmarkana. Mun þessi háttur verða á til 19. október að lágmarki. „Við höfum áhyggjur af því að fólk muni flosna upp úr námi. Það er mín tilfinning. Það á ekki endilega við um okkur sem eru á þriðja ári þar sem við sjáum fyrir endann á þessu. En varðandi þá sem eru yngri þá hef ég mikla trú á því að þetta sé krefjandi og alveg líkur á því að fólk missi taktinn við þetta. Ég veit um marga sem eru ekki ennþá búnir að kaupa skólabækurnar,“ segir Eiríkur.
Hann bendir á að í mars hafi staðan verið nokkur önnur. Þá hafi nemendur verið í þann mund að fara að undirbúa sig undir próf þegar þeim var gert að vera heima. Núna eru nemendur hins vegar nýlega komnir aftur í skólann eftir sumarhlé.
„Hvers vegna er námið meira krefjandi?“
„Þú ert með allt internetið fyrir framan þig en það er ekkert sem jafnast á við að vera með kennarann í skólastofunni. Það er líka nokkuð krefjandi að vera í 75 mínútur í kennslustund, sitjandi einn fyrir framan tölvu. Sérstaklega þar sem þú ert í umhverfi þar sem þú ert vanur að vera að slaka á og fleira sem getur dreift athyglinni,“ segir Eiríkur.
Eiríkur segir að hann og vinirnir eigi í netsamskiptum og eina skiptið sem þú hittir aðra nemendur er á fjarskiptabúnaðinum Teams. „Sumir kennarar taka fast á mætingu en aðrir eru kannski verr í stakk búnir þegar kemur að tæknilegri kunnáttu og þeir eru kannski frekar að einbeita sér að því frekar en að hugsa um mætingu nemenda,“ segir Eiríkur.
Hann segir þó að flestir kennarar hafi sjóast í því að nota Teams þar sem þeir voru einnig að notast við búnaðinn síðastliðið vor.
Að sögn Eiríks hefur notkun fjarfundabúnaðar gert það að verkum að lítið er um læti í tímum. Þó hafi komið upp spaugileg atvik þar sem fólk hefur gleymt að slökkva á hljóðnema eftir að það hefur kveikt á honum til að leggja eitthvað til málanna í kennslustund. „Einhverjar sögur eru af strákum að tala um stelpumál og stelpum um strákamál. Þau fatta ekki að hljóðneminn er ennþá á. Það er hálfgerð regla að vera með stillt á „mute“ en það á það til að gleymast. Það getur verið mjög óþægilegt,“ segir Eiríkur í gamansömum tón.