Allir nemendur á miðstigi í Álfhólsskóla í Kópavogi þurfa að fara í vikulanga sóttkví eftir að smit hjá nemanda í hópnum var staðfest í dag. Miðstigið, 5., 6. og 7. bekkur, var í sérstöku sóttvarnahólfi og því sleppur unglingastigið við sóttkví, þrátt fyrir að vera í sömu byggingu.
Samtals eru þetta hátt í 200 börn sem fara í sóttkví, þrír bekkir í hverjum árgangi.
Þetta hefur verið sérstök vika í skólanum. Á þriðjudaginn greindist fyrsta smitið hjá nemanda í skólanum og voru allir nemendur skólans sendir í úrvinnslusóttkví í kjölfarið. Það hafði sem betur fer verið starfsdagur á þriðjudeginum og nemendur ekki í skólanum. Á miðvikudaginn og í dag var síðan heldur enginn í skólanum vegna úrvinnslusóttkvíarinnar.
Á morgun snýr unglingastig aftur til náms og sömuleiðis grunnstig, 1.-4. bekkur. Aðstoðarskólastjórinn, Einar Birgir Steinþórsson, segir að veiran sé að verða ansi erfið viðureignar inni í skólum.
„Við eigum að halda opnu og halda óskertu starfi. Við reynum að standa okkur í því eins og fært er en þetta er ekki einföld staða að verða,“ segir hann í samtali við mbl.is. Hann segir að ekki hafi komið til umræðu að loka skólanum alveg.
Skólinn býr að æfingu frá því í fyrstu bylgju faraldursins þegar hann lokaði að hluta. Nemendurnir sem nú fara heim verða í fjarnámi að svo miklu leyti sem það er unnt. Skólinn er með spjaldtölvur sem verða sendar heim með nemendum og fer námið þá í gegnum þær.
Víða um Reykjavík hefur viðlíka þróun átt sér stað undanfarna daga, síðast í Háteigsskóla, eins og sagt var frá á mbl.is í morgun. Þá er verið að skima 600 nemendur í Sunnulækjarskóla á Selfossi í dag, eftir að smit kom upp hjá sérkennara.