Óbein áhrif á lýðheilsu vöktuð

Alma Möller, landlæknir, hefur lagt til að heildaráhrif faraldurs Kórónuveirunnar …
Alma Möller, landlæknir, hefur lagt til að heildaráhrif faraldurs Kórónuveirunnar á lýðheilsu verði vöktuð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landlæknisembættið hefur litlar forsendur til þess að meta hver langtímaáhrif verði á lýðheilsu af þeim aðgerðum sem beitt er til að bregðast við faraldri kórónuveirunnar. Þetta kemur fram í svari við fyrirspurn mbl.is. Lagt hefur verið til við ráðherra að stofna starfshóp til að vakta óbein áhrif faraldursins. 

Þau miklu inngrip í gangvirki samfélagsins sem stjórnvöld hafa beitt til að jafna álag á heilbrigðiskerfið og vernda viðkvæmustu hópa samfélagsins á eftir að hafa miklar afleiðingar fram í tímann, sér í lagi þar sem ljóst má vera að veiran mun hafa mikil áhrif á líf okkar næstu misserin. Þessi umræða verður nú sífellt meira áberandi. Í Fréttablaðinu í dag er fjallað um óeiningu innan ríkisstjórnarflokkana um meðölin sem gripið hefur verið til í því markmiði að hefta útbreiðslu þriðju bylgju faraldursins. 

Sundlaugar eru lokaðar á meðan samkomutakmarkanir eru í gildi.
Sundlaugar eru lokaðar á meðan samkomutakmarkanir eru í gildi. mbl.is/Hallur Már

Þá hefur hópur lækna og heilsufarssérfræðinga, sem margir hverjir eru afar virtir í sínu fagi, víða um heim samþykkt Great Barrington yfirlýsinguna þar sem aðgerðirnar sem beitt hefur verið í baráttunni við faraldurinn eru taldar hafa of miklar neikvæðar afleiðingar í för með sér á geðheilsu og almenna lýðheilsu til þess að þær séu réttlætanlegar. Hér má lesa umfjöllun BBC um yfirlýsinguna. Vert er að taka fram að þar er verið að mótmæla aðgerðum sem víða eru mun harðari en gripið hefur verið til hér á landi.   

Í samtali sem alþingiskonan Sigríður Á. Andersen átti við Anders Tegnell, sóttvarnalækni Svía, á dögunum kom fram að almenn lýðheilsusjónarmið hefðu frá upphafi verið fyrirferðarmikil við mótun á stefnu til að takast á við faraldurinn.

Það eru því víða uppi þau sjónarmið að meðalið sé verra en sjúkdómurinn. Þó allir séu auðvitað sammála um að allir kostir séu slæmir.

Hægst hefur á flestum sviðum sviðum atvinnulífsins.
Hægst hefur á flestum sviðum sviðum atvinnulífsins. mbl.is/Árni Sæberg

Fyrirspurn mín, sem verður teljast frekar yfirgripsmikil, til landlæknis hljóðaði þannig: 

Hvernig eru langtímaáhrif aðgerðanna sem verið er að grípa til metin með tilliti til heildaráhrifa á heilbrigði þjóðarinnar eða lýðheilsu? Þar sem verið er að skoða þætti á borð við geðheilbrigði og álag á heilbrigðiskerfið til lengri tíma miðað við þá mynd sem er að birtast. Þar sem forsendur eins og atvinnuleysi til skemmri og lengri tíma eru teknar inn í myndina.   

Svarið ritar Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis, og í því er talað um að ýmsir mælikvarðar hafi verið vaktaðir frá því að faraldurinn kom upp. Niðurstöður slíkra mælinga eru flestar að finna í Talnabrunni embættisins. Hér er fjallað um starfsemi heilbrigðisþjónustu og hér er er að finna umfjöllun um rannsókn á ýmsum þáttum í andlegri líðan þjóðarinnar þegar almenningur fór að finna fyrir aðgerðum stjórnvalda í vetur.

Þegar kemur að áhrifum til lengri tíma vandast málið enda erum við, nú gefst tækifæri á nota frasann margþvælda, á fordæmalausum tímum.

„Embættið skortir hins vegar frekari innsýn í óbein áhrif faraldursins er varðar t.d. afleiðingar ofbeldis, umfang atvinnuleysis og tekjumissis, áhrif mótvægisaðgerða og ýmis heilsuhagfræðileg áhrif. Rannsóknir um allan heim hafa sýnt að merkjanlegur munur er á heilsu og vellíðan milli þjóðfélagshópa sem skilgreindir eru t.d. út frá kyni, menntun, tekjum og búsetu. Nýjar rannsóknir sýna að faraldurinn af völdum COVID-19 getur aukið ójöfnuð í heilsu, bæði til lengri og skemmri tíma.

Geðsjúkdómar eru meðal algengustu sjúkdóma og valda þjáningum hjá sjúklingum …
Geðsjúkdómar eru meðal algengustu sjúkdóma og valda þjáningum hjá sjúklingum og álagi á aðstandendur. Landlæknir leggur til að vakta geðheilsu með tilliti til áhrifa af völdum faraldursins. mbl.is/Golli

Landlæknir hefur lagt það til við heilbrigðisráðherra að stofnaður verði þverfaglegur hópur sérfræðinga til að vakta þessi óbeinu áhrif til bæði skemmri og lengri tíma. 

Ljóst er að faraldurinn og aðgerðir til að sporna við reyna á andlega heilsu fólks, þá sérstaklega þeirra sem voru veikir fyrir. Þannig hefur landlæknir einnig lagt til að stofnaður verði hópur rannsakenda og veitenda geðheilbrigðisþjónustu sem sé ætlað að vakta sérstaklega andlega líðan og geðheilbrigði þannig að hægt sé að bregðast við þegar og ef þörf skapast. 

Heimsfaraldur nýju kórónaveirunnar en án fordæma og hið sama má segja um þær víðtæku aðgerðir sem stjórnvöld hafa gripið til að stemma stigu við honum. Frá upphafi hefur það verið markmið embættis landlæknis að tryggja órofið aðgengi að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu,“ og þar með lýkur svari Kjartans Hreins.

Viðbrögðum við tillögum landlæknis má því vænta áður en langt um líður. Þá verður áhugavert að fylgjast með því hverjir veljast í starfshópana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert