„Fyrstu tölur frá Samtökum iðnaðarins sýna um 3% samdrátt í Reykjavík milli ára og er það lítill samdráttur samanborið við höfuðborgarsvæðið allt,“ segir Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs borgarinnar.
Ný talning Samtaka iðnaðarins hefur leitt í ljós verulegan samdrátt í nýbyggingum íbúða á höfuðborgarsvæðinu. Sigurborg segir hins vegar að þetta líti vel út í Reykjavík „og við erum bjartsýn á að íbúðauppbygging á þessu ári verði meiri en á síðasta ári. Árið 2019 fóru 846 nýjar íbúðir í byggingu en á fyrstu sex mánuðum þessa árs voru útgefin byggingarleyfi fyrir samtals 646 íbúðir svo það stefnir í vöxt í Reykjavík,“ segir hún.
„Þetta rímar vel við þá staðreynd að síðustu fimm ár hafa verið eitt mesta uppbyggingartímabil í Reykjavík í áratugi. Frá ársbyrjun 2015 hefur hafist bygging á 5.680 nýjum íbúðum. Mesta samdráttarskeiðið var hins vegar frá 2009 til 2011 en þá var hafin smíði á 282 íbúðum og þar af einungis 10 íbúðum árið 2010,“ segir hún í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.