Skimuðu 600 á klukkustund

Fjöldi fólks mætti í skimun og sýnatöku á vegum heilsugæslu …
Fjöldi fólks mætti í skimun og sýnatöku á vegum heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í dag.

Mjög mikið verður um sýnatökur vegna COVID-19 á höfuðborgarsvæðinu næstu tvær til þrjár vikurnar að sögn forstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. 2.750 sýni voru tekin á vegum heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í dag, í einkennasýnatöku og sóttkvíarskimun. 1.250 sýnanna voru tekin vegna einkenna.

Um er að ræða mesta fjölda sýna sem heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu hefur tekið á venjulegum dagvinnutíma og voru sýnin allt að 600 á klukkustund.

Mikil röð myndaðist í sóttkvíarskimun í dag. Óskar Reykdalsson, forstjóri heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að ástæðan fyrir því sé sú að á hverjum morgni viti heilsugæslan ekki nákvæmlega hversu margir komi þann daginn. Heilsugæslan reynir að taka við öllum samdægurs og er fjöldi þeirra sem koma í sóttkvíarskimun aðeins óútreiknanlegri en þeirra sem koma í einkennasýnatöku. Þeir sem koma í einkennasýnatöku þurfa venjulega ekki að bíða í röð.

Óvenjumargir í dag

„Fjöldi þeirra sem kemur í sóttkvíarskimun getur verið svolítið óljós vegna þess að þeir fá ekki bókaðan tíma á einn stað, við vitum ekki hvort þeir séu að koma af höfuðborgarsvæðinu eða annars staðar og séu þar af leiðandi að fara í skimun á öðrum stöðum á landinu,“ segir Óskar í samtali við mbl.is.

„Í dag voru óvenjumargir og þá lengdist svolítið biðröðin. Við kölluðum til aukamannskap og sendum niður eftir en það tekur alltaf einhvern smá tíma að fá fólk svo biðröðin hélst svolítið en hún fór nú samt niður og svo erum við núna að setja upp verklag þar sem við reynum að fá aðeins betri upplýsingar um það hversu margir koma á hverjum degi svo við getum mannað með aukamannskap ef á þarf að halda. Það verður mjög mikið [um sýnatökur] næstu tvær þrjár vikurnar. Við erum að fara yfir það hvernig við getum tryggt að það verði sem allra styst bið.“

Breyta kerfinu nánast daglega

Til skoðunar er að bæta við starfsfólki og sýnatökubásum sem og að lengja þann tíma sem sýni eru tekin á. Allir sem biðja um sýnatöku vegna einkenna fá að fara í sýnatöku, að sögn Óskars.

Venjulega eru sýni tekin úr 400 manns á klukkustund, 100 á hverju korteri.

„Út af þessum aðeins óvænta fjölda í dag fór þetta upp í 600 á klukkustund. Um leið og við erum komin upp í 600 á klukkustund þá getum við ekki gert þetta mikið hraðar. Við erum búin að hámarka afköstin svo mikið að það er eiginlega varla hægt,“ segir Óskar.

„Þá þurfum við að bæta við básum, bæta við fólki og lengja daginn og það er það sem við erum að gera núna, til þess að það sé ekki bið. Við getum ekki haft mikla bið vegna þess að það verður snjókoma og það verður rigning einhvern daginn. Það gengur auðvitað ekki. Við breytum liggur við kerfinu hjá okkur á hverjum degi þannig að það eru alltaf áskoranir hjá okkur alla daga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert