Landspítali býst við auknu álagi vegna COVID-19 á næstunni, að sögn Páls Matthíassonar forstjóra spítalans. Þó telji stjórnendur spítalans að hann geti brugðist við því. Það velti helst á því hvort náist að útskrifa fólk af spítalanum sem þarf ekki lengur á sjúkrahúsinnlögn að halda heldur öðrum úrræðum, til dæmis hjúkrunarrýmum.
Páll sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að spítalinn hafi getu umfram svörtustu spár til að mæta þörf á gjörgæslurýmum og öndunarvélum en vildi ekki svara því hversu margar öndunarvélar væru tiltækar. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á fundinum að ef mikill fjöldi smita haldi áfram að greinast munum við yfirkeyra spítalann.
23 eru nú inniliggjandi á Landspítala, 12 konur og 11 karlar. Þrjú þeirra eru á gjörgæslu og öll þeirra þriggja í öndunarvél. 35 hafa alls lagst inn á spítalann frá upphafi þriðju bylgju og er um að ræða fólk á mjög breiðu aldursbili, frá tvítugu til tíræðs.
Páll sagði að enn fylgdu innlagnir svipaðri þróun og í vor þó aðeins minna væri um að fólk þyrfti á gjörgæslumeðferð að halda.
Páll sagði að ekki væri nóg að tryggja að spítalinn hafi mannskap, aðstöðu og búnað, það þarf líka að tryggja að sjúklingar útskrifist á réttan stað. „Það er engum greiði gerður með því að vera á sjúkrahúsi þegar ekki við á.“
Páll hrósaði heilbrigðisstarfsfólki fyrir sína vinnu í faraldrinum, þá sérstaklega hjúkrunarfræðingum sem Páll sagði að hefðu hingað til leikið lykilhlutverk í heilbrigðisþjónustu vegna faraldursins. Enn vantar mannskap í bakvarðasveitir heilbrigðis- og velferðarþjónustunnar og biðlaði Páll sérstaklega til hjúkrunarfræðinga að skrá sig í þær.
Páll lauk erindi sínu með þeim skilaboðum að fólk þyrfti að sjá vel um sig og sína á þessum erfiðu tímum.
„Þessi farsótt reynir á. Það er mikilvægt að við hvert og eitt tökumst á við það og horfumst í augu við það.“