Sveitarfélögum gæti fækkað um tólf

Viðræður og athuganir á sameiningu sveitarfélaga.
Viðræður og athuganir á sameiningu sveitarfélaga.

Ef þær viðræður og kannanir á sameiningu sveitarfélaga sem nú eru í gangi leiða til sameiningar mun sveitarfélögum í landinu fækka úr 69 í um 60 fram til næstu kosninga.

Við nýafstaðna sameiningu á Austurlandi fækkaði sveitarfélögum um þrjú og þeim gæti því fækkað um 12 á kjörtímabilinu.

Formlegar viðræður eru aðeins á einum stað, um sameiningu Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar. Þeim hefur aðeins seinkað vegna kórónuveirufaraldursins en stefnt er að íbúakosningu um tillögu að sameiningu í júní á næsta ári.

Sveinn Margeirsson, sveitarstjóri í Mývatnssveit, segir að mikil óvissa sé í fjármálum allra sveitarfélaga, ekki síst hjá sveitarfélögum sem hafa reitt sig á innkomu vegna ferðaþjónustu. Búast megi við að það hafi áhrif á málefnagrundvöll sameiningar. „Hjá báðum sveitarstjórnum er sterkur vilji til að fjárfesta í góðum verkefnum sem koma samfélaginu áfram til framtíðar,“ segir Sveinn í umfjöllun um sameiningarmálin í Morgunblaðinu í dag.

Enn verið að ræða málin

Sameiningarnefnd Blönduósbæjar, Húnavatnshrepps, Skagabyggðar og Sveitarfélagsins Skagastrandar hefur samþykkt að leggja til við sveitarstjórnir að þau hefji formlegar sameiningarviðræður sem endi með íbúakosningu í júní á næsta ári.

Fimm sveitarfélög í Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu eru enn að undirbúa kynningu á stöðu sveitarfélaganna og áhrifum sameiningar fyrir íbúum. Það verður gert á rafrænum fundum síðar í mánuðinum. Að því búnu verður gerð könnun á afstöðu íbúa og síðan þurfa sveitarstjórnirnar að ákveða, hver fyrir sig, hvort þær vilji taka þátt í formlegum sameiningarviðræðum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert